149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:23]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og einlægan og opinn áhuga að mér finnst á framtíð fjármálakerfisins. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það eru ólíkar áherslur, hvort sem er innan ríkisstjórnarflokkanna eða ekki, annað væri nú að Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri hreyfingin – grænt framboð væru með nákvæmlega sömu stefnu um framtíð fjármálakerfisins. Bitte nú, segi ég bara, forseti. Það sjá það allir að það gerist ekki einn, tveir og þrír.

Hins vegar er búið að ná saman um hvert ríkisstjórnin ætlar að stefna og hvaða lágmarksviðmið eru þar. Og síðan erum við með þessa hvítbók fyrir okkur öll til að ræða þessa sameiginlegu stefnu. Ég ítreka aftur það sem hv. þingmaður tók undir, að sporin hræða. Það er helsta leiðarljós mitt þegar að þessu kemur.

Hvað varðar nákvæmlega spurningu hv. þingmanns um lækkun á bankaskatti er augljóst að hún hefur ýmislegt í för með sér sem þarf að skoða. Það eru ekkert allir á eitt sáttir um nákvæmlega hverju það skilar. Ég vitnaði áðan í umsögn Ásgeirs Brynjars Torfasonar úr fjármálaráði. Ég ætla að leyfa mér, forseti, að vitna í hana aftur.

„Alls ekki er víst að lækkun skatta á banka skili sér í minni vaxtamun heldur auki aðeins arðsemi til eigenda. Verður að teljast eðlilegt að gæta þess að búið sé að endurheimta allan þann kostnað sem samfélagið bar af fjármálahruninu áður en ákveðið er að lækka sérstakar opinberar álögur á banka.“

Þetta er eitthvað sem við þurfum að hafa í huga þegar að þessum málum kemur, eins og svo margt annað.