149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:28]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður spyr hvort ég telji að það sé samhljómur milli stjórnarflokkanna um samfélagsbanka, þ.e. skilgreininguna. Nei, ég held að maður gæti ekki smalað fólki í lyftu sem yrði sammála um það hvað samfélagsbanki er. Þetta er að einhverju leyti tískuorð, ekki ósvipað og „kerfisbreytingar“ sem maður getur nánast látið þýða hvað sem er.

Einn af göllunum við hvítbókina að mínu viti er að þar er bara sagt: Samfélagsbanki er sparisjóður. Svo er bara farið að tala um sparisjóði en því miður ekki nógu djúpt eins og kom fram í máli mínu áðan, þar sem ekki einu sinni er skoðuð rannsóknarskýrsla um sparisjóðanna.

Það eru til ýmsar tegundir af samfélagsbönkum. Og þegar ég segi: Nei, ekki endilega samhljómur á milli stjórnarflokkanna, á það ekki bara við um þá. Ég held að við í þessum sal skiljum samfélagsbanka hvert á sinn hátt. Það er ákveðinn galli. Við þurfum kannski að velta því fyrir okkur hvað samfélagsbanki er. Er það „non-profit“ banki? Afsakið slettuna, virðulegur forseti. Er það banki sem er að hluta til ekki á formi skráðra hlutafélaga eins og í Þýskalandi? Hv. þingmaður nefndi Noreg. Erum við að tala um Sparisjóð Suður-Þingeyinga? Það er ýmislegt til í þessu.

Svarið er að við erum ekki að tala um Sparisjóð Suður-Þingeyinga. Það átti að vera punkturinn í minni gagnrýni. Það er ekki bara hægt að segja: Samfélagsbanki er sama og sparisjóður.

Hafi mér orðið á að brosa að því að ferlið væri heppilegra með VG innan borðs þá er það einfaldlega af því að mér finnst nú flest heppilegra með VG innan borðs. Ég vil bara taka undir með hv. þingmanni að mér finnst mjög mikilvægt að sem fjölbreyttust sjónarmið heyrist við þetta. En ég hjó eftir að hv. þingmaður talaði alltaf um að „þegar sala bankanna verður ákveðin“ og er þá pínulítið búin að gefa sér hver niðurstaðan verður. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Nú leiðréttir hv. þingmaður mig. En mér finnst mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að sem fjölbreyttust sjónarmið heyrist þegar ákvarðanir eru teknar um framtíðarfyrirkomulag fjármálakerfisins.