149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:30]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um fjármálakerfið, hvítbók um framtíðarsýn fyrir það. Hæstv. ríkisstjórn lagði upp með og staðfesti í stjórnarsáttmála að treysta til framtíðar samfélagslegan stöðugleika. Velsæld og lífsgæði og undirstaða þess er styrkur efnahagur. Efnahagslegur styrkur byggist á traustum ríkisfjármálum og peningastefnu og ekkert síður samspili þar á milli. Það er mikilvægt að ríkisfjármálastefna og peningastefna vinni saman að stöðugu efnahagsumhverfi með jafnari sveiflum, verðstöðugleika og stöðugum gjaldmiðli. Í þessu samhengi hefur traust fjármálakerfi mikla þýðingu. Í ljósi reynslunnar er eðlilegt að vinna að því að treysta fjármálakerfið og regluverkið í kringum það eins og lagt er upp með í þessari vinnu.

Í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar segir um fjármálakerfið að það eigi að vera traust og þjóna samfélaginu á hagkvæman og sanngjarnan hátt. Eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum er eitt það umfangsmesta í Evrópu og vill hæstv. ríkisstjórn leita leiða til að draga úr því. Ljóst er þó að ríkissjóður verður leiðandi fjárfestir í a.m.k. einni kerfislega mikilvægri fjármálastofnun. Þá liggur það bara fyrir. Lagt er upp með það í stjórnarsáttmála og það þýðir einfaldlega um leið að verið er að stíga varlega til jarðar.

Leiðarljósin í vinnu við hvítbókina eru á þessum nótum, að auka traust á íslenskum fjármálamarkaði, að treysta gagnsæi og fjármálastöðugleika. Og þótt mikilvægar umbætur hafi verið gerðar á lagaumhverfi fjármálafyrirtækja er brýnt að gera betur. Eignarhald á kerfislega mikilvægum fjármálastofnunum verður að vera gagnsætt og það er hæstv. ríkisstjórn í mun að vinna að frekari skilvirkni í fjármálakerfinu með það að leiðarljósi að lækka kostnað neytenda. Þetta er það sem er kjarninn í því sem hæstv. ríkisstjórn leggur upp með og nú stöndum við hér og ræðum skýrsluna og afrakstur starfshópsins eins og lagt var upp með, og vonandi að áformin gangi vel hér eftir sem hingað til. Það hangir saman við áform um stöðugt efnahagsumhverfi og er í takt við samandregnar niðurstöður sem við lesum í þessari ágætu bók. Ég er sammála þeim hv. þingmönnum sem hafa talaði um faglega þætti hvítbókarinnar og grundvöll til umræðu og þessar stoðir um öruggt, skilvirkt og hagkvæmt fjármálakerfi sem eru hverju samfélagi mikilvægar. Miðlunarhlutverk slíkra stofnana er með þeim hætti að gera heimilum og fyrirtækjum kleift að ávaxta sparnað, flýta fjárfestingum með lántöku og er lykill að aukinni verðmætasköpun og meiri lífsgæðum en ella. Um leið fylgir áhætta slíkri starfsemi. Það höfum við reynt. Regluverk, eftirlit og heilbrigt eignarhald þarf að fylgja til að tryggja skilvirkt kerfi og auka öryggi.

Virðulegi forseti. Um þetta held ég að allir geti verið sammála. Hvað eignarhaldið varðar, eins og fram hefur komið í umræðu um þessa skýrslu og í umfjöllun á vettvangi fjölmiðla, þarfnast það frekari ígrundunar hvernig farið verður með eignarhald ríkisins á tveimur af þremur stóru bönkunum, hvaða eignarform á við í því tilliti. Og það er mikilvægt að greina á milli eignarforms og eignarhalds. En eins og komið hefur fram í umræðunni, og könnun meðal neytenda, fer því fjarri að samstaða eða meirihlutaskoðun sé til staðar um það. Í því tilliti er nærtækt að vitna til könnunar sem starfshópurinn lét Gallup gera fyrir vinnu hvítbókarinnar, um viðhorf almennings til bankaþjónustu. Þar kemur m.a. fram að 61% er jákvætt fyrir eignarhaldi ríkisins. Þar kemur einnig glöggt fram það vantraust sem ríkir á íslenskum bönkum. Í samhengi úrbóta nefnir fólk m.a. háa vexti, dýra þjónustu, græðgi og há laun og ljóst að tiltrúin á kerfinu hefur ekki unnist til baka frá hruni. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar við tökum umræðuna. Ég held að það sé mikilvægt að hv. efnahags- og viðskiptanefnd hafi þessa þætti í huga, og umræðuna hér í dag sem mér finnst spegla þetta mjög vel, og dýpki þá það sem upp á vantar í þessari ágætu skýrslu sem leggur grundvöllinn að umræðunni.

Skýrslan gerir það sannarlega, hún er gott innlegg. Markmiðið með vinnunni er að skapa þessa sýn, hún er innlegg í þá umræðu. En auðvitað saknar maður þess að ekki sé farið ítarlegar yfir í aðra valmöguleika þegar kemur að eignarformi en bara hlutafélög, og tilgangi og stefnu slíkra fjármálafyrirtækja. Það finnst mér koma mjög skýrt fram í umræðu t.d. um það sem kallað er samfélagsbanki. Það er alveg hárrétt að samfélagsbanki getur þýtt ýmislegt. Hann er alla vega að meginstefnu til og uppleggi samfélaginu til heilla, það felst í orðinu. En hann verður aldrei annað en það sem við skilgreinum. Mér finnst hins vegar nauðsynlegt að taka umræðu um það. Ég sakna þess í þessari skýrslu að taka rökin með og á móti, kosti og galla við það, og vega á móti þeim samfélagslega fórnarkostnaði sem augljóslega felst í því að binda jafnmikla fjármuni í fjármálakerfi og raun ber vitni á sama tíma og við spyrjum okkur að því hvort það sé endilega alveg nauðsynlegt, við þær kringumstæður sem við búum við í dag, sem eru ólíkar því sem var fyrir tíu árum þegar kemur að regluverkinu, að ríkið bindi þessa fjármuni í kerfinu á kostnað þess að nýta þá í samfélagslega innviði, lækka skuldir eða byggja upp þau kerfi sem við teljum að ríkið eigi að gera, og það er af nógu að taka í því.

Það má velta því fyrir sér hvort það sé vænlegur kostur að breyta öðrum ríkisbankanum í samfélagsbanka að þýskri fyrirmynd. Þá erum við um leið búin að skilgreina hvað samfélagsbanki er. Sparisjóðirnir þýsku njóta trausts. Um 40% af umfangi fjármálakerfisins þar eru sparisjóðir. Þeir vinna fyrir nærumhverfið og hafa það á stefnuskrá sinni að sinna viðskiptum einstaklinga og fyrirtækja á samfélagslegum forsendum. Það er gert í mjög nákvæmu regluverki, þ.e. það þýðir ekki að verið sé að niðurgreiða fjármálaþjónustu eða niðurgreiða vexti. Það yrði aldrei heimilt. Það felst hins vegar í því að farið sé með ákveðnum hætti með eigið fé. Það myndast ákveðin samfélagslegur sjóður sem fer til samfélagslegra verkefna.

Í ræðu hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés kom fram gagnrýni Ásgeirs Brynjars Torfasonar, sem snýr að þessum lið. Það er umræðan um fjölbreytt eignarhald. Ég tek undir með þeim ræðumönnum að það hefði mátt dýpka þá umræðu frekar í skýrslunni. Nokkrir hv. ræðumenn hafa kvartaði undan því að tíminn líði hratt. Ég tel rétt að draga það fram hér að lokum, það eru lokaorð skýrslunnar, að full ástæða sé til að stíga skrefin varfærið með það að markmiði að draga úr áhættu og minnka fórnarkostnað ríkissjóðs af eignarhaldinu án þess að markmið um stöðugleika og trausta innviði sé í hættu.