149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er áhugaverður fyrirlestur sem við fáum hér, góðar ræður, finnst mér, sem þingmenn úr öllum flokkum flytja. Það er samhljómur, heyrist mér, hjá flestum. Ég vil hrósa ríkisstjórninni fyrir að hafa byggt upp góðan grunn fyrir okkur til að ræða þetta gríðarlega mikilvæga mál, halda áfram með það. Ég vona að mjög vel verði farið yfir alla þá þætti sem komið hefur verið inn á. Ég tek undir það með hv. þingmanni, eftir hans góðu ræðu, að það skiptir öllu máli að við byggjum upp trúverðugt söluferli innan tveggja, þriggja eða fjögurra ára. Ég tel að ríkið eigi ekki að vera í stórfelldum bankarekstri upp á 330 milljarða. Um leið og ég segi það tek ég undir það að ríkið eigi að vera kjölfestufjárfestir í einum banka. Ég held að við verðum að læra það og við verðum að skoða vel hvað það þýðir nákvæmlega að vera með samfélagsbanka.

Mig minnir að á sínum tíma, fyrir tíu árum, hafi samfélagsbankarnir í Þýskalandi þurft á aðstoð að halda. Í hvers eigu eru samfélagsbankarnir þar? Það væri gott að fá það greint. Ég held að í vinnu nefndarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd verði m.a. að fara yfir það, af því að góður hugur fylgir máli, því að á endanum þurfum við að vita hvernig kerfi við ætlum að búa til; kerfi sem fyrst og fremst sinnir heimilunum og litlu fyrirtækjunum og almennt atvinnulífinu í landinu, býður upp á lágt vaxtastig.

Ég vil enn og aftur koma því á framfæri að við getum ekki boðið upp á raunhæfar lausnir og leiðir fyrr en við breytum gjaldmiðlinum. Það má ekki ræða það. Hugsanlega verður það rætt í nefnd. Það er stór partur af heildarmyndinni. Ég ætla ekki að fara út í þá rökræðu hér. Það er gott að sitja hér og hlusta á hvern þingmanninn á fætur öðrum, úr ólíkum flokkum, lýsa yfir metnaði í því að byggja upp bankakerfi og ræða ákveðna leiðar- og bautasteina sem við getum sammælst um. (Forseti hringir.)

Ég er enn á því (Forseti hringir.) að allt þetta fjármagn upp á 330 milljarða eigi betur heima á öðrum (Forseti hringir.) sviðum til að byggja upp innviði sem við þurfum. Við stöndum frammi fyrir því gríðarlega verkefni að þurfa að byggja þá upp (Forseti hringir.) saman. Með því er ég ekki að segja að við eigum að fara með alla hluti ríkisins út úr bankakerfinu, síður en svo.