149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:45]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka svarið. Ég gæti sagt, eftir að hafa hlustað á ræður stjórnarþingmanna og að hluta til gesta, að bullandi ágreiningur væri á milli stjórnarflokkanna. Við vitum það alveg. Við fáum ekkert út úr því að reyna að kynda undir þann ágreining, af því að við erum að mínu mati að setja þetta í málefnalegan farveg, sem kallar líka á áskorun til stjórnarandstöðunnar að standa sig þegar kemur að því. Þetta er áskorun til okkar allra, að standa vaktina. Hvort sem við höfum ákveðnar skoðanir á samfélagsbönkum og sölu bankanna eða ekki, verðum við að standa almennilega vaktina hvað þetta varðar.

Ég tek undir með hv. þingmanni, sem verður örugglega hæstvirtur einn daginn, að það er algjörlega rétt að reglur um bankakerfið eru gjörbreyttar. Það er miklu betra, öruggara og sterkara en þegar farið var af stað í einkavæðinguna á sínum tíma. Við verðum líka að spyrja okkur þeirrar pólitísku spurningar: Í hvað er fjármunum best varið? Hvar eigum var að fjárfesta? Getur verið að hluta af þeim fjármunum sem við eigum í bankakerfinu, sem ríkisvald og þjóð, sé betur varið í að byggja upp annars staðar? Þá verðum við að fara varlega í að innleysa það fjármagn, fara varlega í sem mestri samstöðu og samvinnu. Það veltur mjög mikið á því hvernig vinnan í efnahags- og viðskiptanefnd fer fram en líka hvaða tóna ríkisstjórnin slær í þessu máli.

Ég vil undirstrika það að ég er hlynnt því að auka frelsi og frjálslyndi á sem víðustu sviðum, en við eigum líka, eins og við höfum talað um hér í dag, að læra af reynslunni. Frelsi með ábyrgð — ef við stígum skref í átt að frelsinu, m.a. innan fjármálakerfisins, verður það frelsi að vera með ábyrgð, og að þessu sinni með innstæðu en ekki innstæðulaust eins og þetta var á sínum tíma.

Þetta er áskorunin sem þingið stendur frammi fyrir, risaáskorun til næstu missera, að reyna að vinna sem best úr þeim góða grunni sem felst í hvítbókinni og er hér til umræðu.