149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:48]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir andsvarið og tek undir það að við stöndum frammi fyrir mikilli áskorun. Ég virði það að hv. þingmaður fari ekki í þær skotgrafir eða í þann gír að tala um bullandi ágreining. Það má auðvitað stilla hlutunum upp með ýmsum hætti, en ég held að það sé ekki ágreiningur. Ég held að hér fari fram mjög ærleg umræða, gagnrýnin umræða, sem er algjörlega nauðsynleg. Ef við horfum á fjárbindinguna, 339 milljarðar er eignin í ríkisreikningi 2017, og mögulega eitthvað meira sem fengist í söluferli — það vitum við auðvitað ekki — hygg ég að fórnarkostnaðurinn, metinn í þeirri fórn að lækka skuldir, lækka skatta, álögur á fólk og fyrirtæki, byggja vegi, fækka einbreiðum brúm, styrkja skólakerfið, heilbrigðiskerfið, hjúkrunarheimilin, sé miklu hærri. Það er því mikilvægt að við skoðum þessa hluti alla í samhengi og með gagnrýnum hætti.