149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:50]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu hvítbók um fjármálakerfið á Íslandi. Og um hvað er hún? Hún er um það að við byggjum upp traust, trúverðugt og gott fjármálakerfi. Hún er góður grunnur fyrir okkur til að nota hér í umræðu.

Nú um stundir á íslenska ríkið þrjá fjórðu hluta af öllu fjármálakerfinu. Niðurstaðan í hvítbókinni er sú að þetta eignarhald er allt of mikið. Þetta er allt of stórt hlutfall. Og hver eru rökin fyrir því? Hver eru rökin fyrir því að við seljum stærstan hluta af eignarhluta okkar í bönkunum? Það eru nokkur sjónarmið rakin í bókinni. Það er fyrst og fremst vísað til samkeppnissjónarmiða. Ég held að við getum öll verið sammála um það að ef einhver einn aðili, annar en ríkið, ætti þrjá fjórðu af bankakerfinu og fjármálakerfinu þá værum við búin að rísa upp á afturfæturna og teldum það brot á öllum samkeppnisreglum og algerlega óviðeigandi að einhver einn aðili ætti þetta.

Það er ekki eins og ríkið hafi óskað þess að eiga þetta. Þetta gerðist auðvitað og var nauðsynlegt í kjölfar hrunsins og svo fáum við annan banka að auki í uppgjörinu við slitabúin. Það er mjög eðlilegt og sjálfsagt að við losum um þennan eignarhlut til að búa til heilbrigt samkeppnisumhverfi fyrir fjármálafyrirtæki. Það er algjörlega nauðsynlegt. Samkeppniseftirlitið hefur sjálft gefið út skýrslu hvað þetta varðar og telur það nauðsynlegt út frá samkeppnissjónarmiðum að ríkið selji hlut sinn þótt það þurfi ekki að selja hann allan. Það gæti til að mynda, eins og lagt er til í bókinni, verið kjölfestufjárfestir í öðrum bankanum, átt til að mynda þriðjung eða svo í þeim banka, sem nemur um 3% af vergri landsframleiðslu.

Nú erum við hins vegar bundin með um 17% af öllum eignum ríkisins í bönkum. Það eru líka þau sjónarmið varðandi samkeppnina að það er mikil hreyfing og fyrirsjáanlegar nýjungar og breytingar á fjármálamarkaði og í fjármálakerfinu. Það má öllum vera ljóst að ríkisvald, eins og það er nú alltaf, er ekki mjög líklegt til að vera með einhvers konar nýsköpun eða fylgja eftir nýjungum eða hafa slíkan drifkraft sem þarf í slíkri samkeppni. Þannig að áhættan er talsverð fyrir íslenska ríkið að eiga svona stóran hlut. Þessi áhætta er mikil vegna þess að þetta er svo stór hluti af eignum ríkisins. Ef sú staða kæmi upp að það yrði önnur bankakreppa, hvort sem það yrði fall í þeim skilningi sem var fyrir tíu árum síðan, eða bara meiri háttar bakslag eða bakslag, þá er ljóst að það eru skattgreiðendur sem greiða slíkt tjón að miklum hluta.

Ég hef hins vegar skilning á því að við erum svolítið brennd eftir bankahrunið, eðlilega erum við brennd, en það breytir því ekki að áhættan á bakslagi er miklu meira fyrir ríkið ef það á allt fjármálakerfið, heldur en að það sé dreift á marga aðila, einkaaðila. Þetta snýst allt um það að hér sé heilbrigt eignarhald. Það er farið ágætlega yfir það í hvítbókinni hvernig menn sjá það fyrir sér. Menn verða að athuga í þessu samhengi að það eru allt aðrar reglur sem gilda núna en giltu við sölu gömlu ríkisbankanna á sínum tíma, sem voru auðvitað bara ríkisstofnanir, þetta voru ekki einu sinni hlutafélög. Nú gilda allt aðrar reglur og ítarlegar reglur um það hverjir geta átt banka og um hæfi þeirra. Áhyggjur manna ættu því a.m.k. ekki að vera þær sömu og var við þá sölu.

Það liggur fyrir í þessari hvítbók að fólk ber almennt mjög lítið traust til fjármálakerfisins. Það mikla vantraust er til staðar þótt ríkið eigi þrjá fjórðu af öllu kerfinu. En í sömu könnun kemur fram að það eru u.þ.b. 60% jákvæð fyrir því að ríkið eigi þetta áfram, eins óskynsamlegt og ég tel það vera.

Það er mikið verk fyrir höndum um að sannfæra almenning um hvar hagsmunir okkar allra liggja í þessu máli þannig að við fáum raunverulega heilbrigt, fjölbreytt og traust bankakerfi þar sem áhættunni er dreift, þar sem er fólk sem kann til verka og er ólíkt innbyrðis þannig að það sé ekki sama áhætta fyrir alla ef það kemur einhvers konar bakslag. Þetta tel ég mikilvægt.

Mér finnst flestir vera nokkuð jákvæðir fyrir einhvers konar sölu, a.m.k. í öðru orðinu, en svo í hinu þá finna menn því allt til foráttu að selja hlut ríkisins og kalla þetta gullgæs og við séum að afhenda hana auðmönnum og allt í einu skipta samkeppnissjónarmið ekki lengur máli af því að ríkið á þetta. Menn tala svolítið út og suður hvað það varðar. Ég hef t.d. ekki almennilega áttað mig á því hvort fulltrúar Pírata og Samfylkingarinnar eru yfir höfuð tilbúnir í að selja hlutinn í raun. Sumir tala um að selja 2–4% á næstu 40 árum. Við verðum bara að meta stöðuna á hverjum tíma. Það er enginn að tala um að gera neitt með gassagangi eða látum, heldur bara að vanda til verka. Þó að Íslandsbanki væri t.d. seldur í einu lagi þá þarf það ekki að þýða gassagang, ef það er gert að mjög vel athuguðu máli þannig að það sé eðlilegt eignarhald sem tekur við þeim banka.

Að lokum vil ég aðeins minnast á þessa umræðu um samfélagsbanka, sem ég, eins og margir aðrir, fæ eiginlega engan skilning á. Eitt get ég alveg fullvissað ykkur um, það að einhvers konar banki í ríkiseigu niðurgreiði í samkeppni þessa þjónustu í nafni samfélagsbanka samræmist auðvitað ekki samkeppnislögum á Íslandi, þannig að það mun aldrei verða gert. Það er auðvitað ekkert því til fyrirstöðu að einhver félög og einstaklingar stofni einhvers konar samfélagsbanka með samfélagsleg markmið. Það er ekkert því til fyrirstöðu, en ég er ekki viss um að ríkið eigi að taka að sér slíka þjónustu. Allt snýst þetta um gott, traust og heilbrigt fjármálakerfi með heilbrigðu eignarhaldi. Það sem við eigum að nota þessa bók í er að fara yfir það hvernig við getum gert þetta sem best, í staðinn fyrir að tortryggja allt þegar kemur að sölu á eignarhlut ríkisins.