149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[19:00]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla, eins og margir aðrir þingmenn, að þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Ég fagna mjög því verklagi sem hér er viðhaft, að við fáum hvítbók, ítarlega og góða skýrslu, frá sérfræðingum um stöðuna á þessum markaði, samantekt á þeirri reynslu sem við höfum og ákveðnu ljósi er svo varpað á þá framtíðarsýn sem okkur hér í þessum sal er svo falið að móta.

Í bókinni er tekið á ýmsum þáttum, til að mynda samstarfi fjármálafyrirtækja um ákveðna innviði, sem ég held að sé einn af þeim þáttum sem við þurfum að fara vel yfir og gæti skipt miklu máli. Rætt er um virkni á verðbréfamarkaði, sem er vissulega mikið áhyggjuefni og ég hygg að við þurfum að leita allra leiða til að virkja og efla traustið á íslenska verðbréfamarkaðnum. Svo er rætt um vexti og vaxtamuninn og komið inn á bankaskattinn, sem hefur töluvert verið rætt um hér í dag. Þá langar mig að láta í ljós þá skoðun mína að auðvitað er eðlilegt að bankar greiði skatt eins og öll önnur fyrirtæki og bankastarfsemi ber ekki virðisaukaskatt.

En það sem er verið að benda á í þessari skýrslu er að bankar hér á Íslandi greiði umtalsvert meiri skatt en fjármálafyrirtæki annars staðar. Þá hljótum við að þurfa að horfa aðeins í eigin barm og velta fyrir okkur samkeppnisstöðu íslenskra fjármálafyrirtækja. Þá er náttúrlega hægt að benda á að það eru auðvitað ekki allir sem sitja við sama borð, því lífeyrissjóðirnir lána umtalsverða fjármuni en greiða ekki þennan sama skatt og bankarnir gera, enda eru fáir sem leita til banka í dag, til að mynda varðandi lán til kaupa á íbúðarhúsnæði.

Það sem hefur kannski verið mest rætt, bæði hér og meðal almennings, eftir útkomu þessarar bókar, er hlutdeild ríkisins í bankarekstri. Ég verð að leyfa mér að túlka þá sem hér hafa talað, alla vega allflesta, á þann veg að við séum nokkuð sammála um að framtíð okkar hér á landi geti ekki verið þannig að ríkið sé helsti rekstraraðili fjármálafyrirtækja. Það kann að vera, og margir hafa talað fyrir því, að ríkið ætti með einhverjum hætti að koma að rekstri eins banka. Ég er sjálf ekki á þeirri skoðun að ríkið eigi almennt að reka fyrirtæki sem starfa á markaði og þar sem samkeppni ríkir, en ég skal ekki þvertaka fyrir að aðstæður geti verið með þeim hætti að það sé skynsamlegt að ríkið haldi á hlutdeild í einhvern tíma í viðbót í það minnsta.

Í þessari umræðu allri finnst mér svolítið mikilvægt að við hræðum okkur ekki í einhvers konar kyrrstöðu. Ég held að kyrrstaða sé ekki það besta. Ég sé fáa tala fyrir því almennt að ríkið eigi að vera stærsti aðilinn á fjármálamarkaði. Og hvar sjáum við, eins og ágætlega er farið yfir í skýrslunni, að það þekkist að ríkið komi með jafnmiklum hætti að rekstri fjármálafyrirtækja eins og hér á Íslandi? Það eru þá lönd sem við viljum hreint ekki bera okkur saman við, alls ekki. Og þau vestrænu ríki sem við samsömum okkur með, þar þekkist ekki svo ríkur eignarhlutur ríkisfyrirtækja.

Ég held að niðurstaðan hljóti alltaf að vera sú í framtíðarsýn okkar að við þurfum að færa okkur úr þeirri stöðu sem er í dag. Ég fagna því að fram hefur komið mikil samstaða um að við eigum að vanda okkur vel í því verki, ég er sammála því. Ég held reyndar að við höfum nú þegar gert það, til að mynda með þessari skýrslu. Ég ætla eiginlega að leyfa mér að halda því fram að við höfum verið að vinna að því síðustu ár. Ég held að það hafi aldrei verið markmið til lengri tíma litið að ríkið myndi reka hér banka. Eins og komið hefur fram í umræðunni hefur það verið lagt fram af fyrri ríkisstjórnum að losa um eignarhlutinn í bönkunum og ég held að það hljóti að vera hægt að færa rök fyrir því að það er engin almenn framtíðarsýn að staðan verði bara eins og hún er í dag. Þess vegna vil ég ítreka það að við megum ekki tala okkur inn á það og hræða okkur með einhverjum þeim hætti að kyrrstaða sé besta lausnin, því það er alls ekki svo. Við verðum að horfa til framtíðar og hvernig við viljum að fjármálaumhverfið sé hér á landi. Ég fyrir mitt leyti held að það geti ekki verið eins og það er í dag með ríkið sem einn helsta rekstraraðilann.

En þá komum við kannski að því sem töluvert hefur verið rætt hér, þ.e. einhvers konar samfélagsbanki. Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé sagði líka í andsvari að það væri alveg rétt að það væri einhvers konar tískuorð og eflaust værum við fæst sammála um það hvað nákvæmlega fælist í því orði, samfélagsbanki. Ég ætla að taka undir með hv. þingmanni sem talaði hér á undan mér, Brynjari Níelssyni, að ef fólk er raunverulega að velta því fyrir sér að hægt sé að reka eitthvað sem heiti samfélagsbanki með niðurgreiddum vöxtum, og banki í eigu ríkisins, þá er það auðvitað ekkert sem stenst það umhverfi sem við búum við í dag. En hafi einhverjir aðilar áhuga á því að koma að slíkum rekstri þá finnst mér það hið besta mál. Sjálf sit ég í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, virðulegur forseti, og ég hygg að við munum fara ágætlega yfir það í nefndinni hvað fólk sjái fyrir sér þegar fólk ræðir um þetta, samfélagsbanki.

En mig langar þó að koma því að ég er reyndar á þeirri skoðun að ég vil að öll fyrirtæki séu samfélagslega ábyrg og hef þá framtíðarsýn að fyrirtæki sem starfi á markaði og vilji vera þar til lengri tíma litið þurfi að vera samfélagslega þenkjandi, þurfi að huga að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Það kann vel að vera að það sé eitt af okkar stærstu markmiðum að búa þannig um hnútana, um okkar kerfi, annaðhvort með hvötum eða einhvers konar löggjöf, að fyrirtæki tileinki sér almennt þá hugsun samfélagslegrar ábyrgðar, sem felst til að mynda í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Að þessu sögðu þá tek ég undir það sem hér hefur komið fram. Við þurfum að vanda til verka þegar kemur að því að selja bankana. Ef ekki er samstaða um það að við eigum að selja bankana þá held ég að við verðum alla vega að koma okkur saman um það að selja banka, og það þarf að sjálfsögðu að vanda til verka við það.

Hér hefur verið rætt um gullgæs, eins og bankarnir séu okkur einhver gullgæs. Það er vissulega rétt að bankarnir hafa skilað umtalsverðum arðgreiðslum á síðustu misserum til ríkisins, enda tókum við þá líka í fangið og allir báru skaða af því þegar það hrun dundi yfir. Það er gott til þess að hugsa að við höfum þó fengið eitthvað til baka nú á síðustu árum. En eins og margoft hefur komið fram, og ég held að sé nokkuð ljóst, að þá sé ekki hægt að horfa til slíkra greiðslna sem einhvers fasta næstu ára. Og ef það væri raunverulega þannig hlyti það að koma fram við verðmat á bönkunum þegar hugað væri að sölu.

Mín skoðun er sem sagt sú, virðulegur forseti, að þegar kemur að rekstri fjármálafyrirtækja sé hlutverk ríkisins fyrst og fremst að stuðla að öflugu og góðu regluverki og eftirliti með því að því regluverki sé fylgt eftir. Þá getum við velt fyrir okkur: Er regluverkið okkar orðið nægjanlega gott? Við höfum að mestu leyti tekið upp þær tilskipanir og þá lagaumgjörð sem er við lýði hjá Evrópusambandinu og erum að klára þá vegferð okkar.

Ég ætla ekki að spá fyrir um nýtt hrun og vona svo sannarlega að það verði ekki, en ef það yrði þá yrði það örugglega ekki nákvæmlega eins og síðasta hrun var. Með þessu er ég bara að segja að við sem löggjafi þurfum alltaf að hafa opin augu fyrir því hvernig regluverkinu er best fyrir komið. Í síbreytilegum heimi þurfum við að huga að breytingu á því eins og öllu öðru. Og auðvitað, eins og við lærðum svo glöggt af síðasta hruni, verður eftirlitið að fylgja þar eftir. Það er fyrst og fremst okkar hlutverk hér inni.