149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[19:10]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér hvítbókina svonefndu, þ.e. skýrslu um framtíðarsýn á íslenska fjármálakerfið. Hér hafa þingmenn margir komið inn á fjölbreytilegustu atriði, þótt mörgum hafi í grunninn verið tíðrætt um svipaða þætti, en það sem er kannski gegnumgangandi í þessari umræðu er að menn eru nokkuð sammála um að það sé ástæða til þess að fara fetið í þeim verkum sem fram undan eru í fjármálakerfinu og að skýrslan sé góður grunnur þar undir og að þar hafi verið unnið gott verk. Margir þingmenn þekkja það enda að hafa átt á vinnslutímanum viðtöl við skýrsluhöfunda um hver sýn þeirra væri á verkið og ég held að að því leyti til hafi verið vandað virkilega til vinnunnar.

Mig langar að ræða nokkur atriði sem kannski hefur ekki mikið verið tæpt á í umræðunni í dag, frekar en að tíunda í smáatriðum þar sem allir aðrir hafa sagt. Í skýrslunni er nokkuð rætt um þá áhættu sem fylgir því að bankar sem eru viðskiptabankar séu einnig í fjárfestingarbankastarfsemi. Farið er yfir hversu óheppilegt þetta hafi verið í aðdraganda hrunsins og jafnvel að það hafi átt einhvern þátt í hruninu og a.m.k. stóran þátt í því hversu hörð lendingin varð. Kerfisáhætta bankanna sjálfra var orðin það mikil eða áhættusækni þeirra var svo mikil, m.a. vegna fjárfestingarbankastarfsemi, að það fór eins illa og fór. Skýrsluhöfundar fara ekki þá leið að leggja til að við gerum áskilnað um aðskilnað á milli fjárfestingarbankastarfsemi og einkabanka eða viðskiptabankastarfsemi, en leggja til það sem þeir kalla hugmynd að varnarlínu. Sú varnarlína liggi einhvers staðar á milli 10–15% í hlutdeild fjárfestingarbankastarfsemi af heildarstarfsemi viðkomandi fjármálastofnunar. Sjálfur hefði ég viljað sjá tillögur um að ganga jafnvel lengra en þetta, þ.e. annaðhvort að varnarlínan væri jafnvel lægri eða að höfundar legðu bara til neðri mörkin á varnarlínunni eða hreinlega að þeir segðu það berum orðum að það yrði að skoða það af fullri alvöru að aðskilja algerlega þetta tvennt. Mér hefði a.m.k. þótt það skynsamlegt og það verði ein af þeim vangaveltum sem við tökum inn í hv. efnahags- og viðskiptanefnd þegar við ræðum skýrsluna nánar þar.

Það er talað um eiginfjárhlutföll í skýrslunni og mér finnst að vissu leyti ýjað að því að kröfur um eiginfjárhlutfall séu orðnar helst til háar. Það er réttilega bent á að verðið sem það er keypt að hafa mjög hátt eiginfjárhlutfall geti verið minni arðsemi viðkomandi banka. Eigið fé, á sama hátt og útlánafé eða annað fé sem bankinn sýslar með, ber ekki sömu vexti og þar með getur það ekki orðið sami grundvöllur til arðgreiðslna til eigenda. En það má líka segja: Þetta er í rauninni það verð sem við gjöldum fyrir meira öryggi í bankastarfsemi. Við viljum ekki að bankarnir séu með þunna eiginfjármögnun eins og þeir voru með fyrir hrun og við viljum ekki að þeir geti ekki tekið við neinum áföllum. Þess vegna er eiginfjárhlutfallið þetta miklu hærra. Ég tel a.m.k. að í bili þá séum við ekki komin þangað að við getum slakað neitt verulega á í þeim efnum.

Í skýrslunni er talað töluvert mikið um tæknilausnir og með hvaða hætti tæknilausnir muni þróast áfram í bankakerfinu. Ég held að það sé mjög mikilvægt. En ég held að það sé líka mikilvægt að þegar þessar tæknilausnir eru teknar í þjónustu bankanna, þegar bankarnir setja lausnirnar til verka, ef svo má að orði komast, þá skili það sér til neytendanna, þeirra sem skipta við bankana. Þær verði ekki bara andlag til aukinna arðgreiðslna og aukinnar arðsemi bankanna að öllu leyti, þetta komi líka til notendanna. Það sama á í rauninni við um stærðarhagkvæmnilausnir, lokun útibúa o.s.frv. Nokkrir hv. þingmenn hafa einmitt komið inn á það hér í dag að þeir sakni þess að sjá ekki bankana koma með ávinninginn af þessum breytingum að meira leyti til sinna viðskiptavina.

Það er erfitt að komast frá þessari umræðu öðruvísi en að ræða eitthvað um eignarhald bankanna, enda má kannski segja að sú umræða hafi verið það sem hefur risið einna hæst og menn hafa talað hvað mest um hér í dag og raunar undanfarnar vikur. Þingmenn hafa margir komið inn á það að við erum með það skrifað inn í samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar að ríkisstjórnin ætlar að draga úr eignarhaldi ríkisins á bönkunum. En ég er algerlega sammála því sem hefur komið fram hjá mjög mörgum þingmönnum í dag, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, að þar verðum við að fara varlega. Við verðum að tryggja að farið sé eftir gagnsæjum reglum og ekki sé verið að selja bankana bara til að selja þá heldur vegna þess að það skipti máli hvernig það er gert.

Sjálfur tel ég að það sé mjög mikilvægt að ríkið eigi einn banka. Ég held að reynsla undanfarinna ára sýni okkur það. Það sé ekki skynsemi í því að ríkið láti frá sér, alla vega ekki í verulegum mæli, eignarhluti í báðum bönkunum. Ég er sammála því sem kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra áðan að það eigi að vera Íslandsbanki sem við myndum byrja á og tel að við eigum að fara þá leið fyrsta kastið án þess að vera með einhvern áskilnað fyrir fram um að við munum síðan selja næsta banka. Taka eitt skref í einu án einhverra skuldbindinga fram á við.

Við skulum heldur ekki gleyma því að það að ríkið eigi ríkjandi hlut og stóran hlut í einum banka á þessu breytingaskeiði og kannski inn í næstu ár, kann hæglega að skila sér í því að ríkið geti einmitt haft forgöngu um það, ríkisbankinn, að tæknilausnirnar til að mynda eða skattalækkanir skili sér í raun til notendanna. Ef bankinn sem ríkið á gengur á undan með góðu fordæmi í því að skila þessum ávinningi til viðskiptavinanna þarf enginn að segja mér að hinir bankarnir fylgi ekki á eftir. Ég held að það sé algerlega morgunljóst.

Herra forseti. Ég hlakka til að ræða þessa skýrslu nánar í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, m.a. þessa ágætu hugmynd um miðlægan skuldagrunn sem ég náði ekki að ræða neitt ítarlega í ræðu minni í dag, en hlakka til að eiga frekari orðaskipti við hv. nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd þegar þar að kemur.