149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[19:20]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða um hvítbók fjármálakerfisins. Samkvæmt skoðanakönnun sem Gallup framkvæmdi fyrir starfshópinn um hvítbókina er meiri hluti Íslendinga jákvæður fyrir eignarhaldi ríkisins á bönkunum. Það eru bara 14% sem eru hlynntir sölunni. Fram kemur í hvítbókinni að langt sé í það að almenningur hafi traust á fjármálakerfinu. Sé mið tekið af könnunum sem gerðar voru af starfshóp í tengslum við vinnu hvítbókarinnar er hrun fjármálakerfisins enn ofarlega í huga fólks og endurspeglar það viðhorf fólks til bankanna.

Það þarf að koma á fullum aðskilnaði milli viðskiptabanka og fjárfestingarstarfsemi. Við verðum að átta okkur á því að ríkið á 100% í Íslandsbanka og 98% í Landsbankanum. Það eru gífurleg verðmæti í þeim bönkum. Samanlagt eigið fé þeirra er um 450 milljarðar kr.

Hvítbókin er eiginlega vonbrigði frá A til Ö. Hún er eiginlega hvítþvegin, eða klórþvegin. Það mætti halda að hún hafi verið lögð í klór til að ná þessum hvíta lit á hana.

Það vantar afnám verðtryggingar, okurvaxta, og tekið verði á þeim til hagsældar fyrir neytendur, og að skoða allar almennar hugmyndir um samfélagsbanka. Við þurfum og þjóðin krefst samfélagsbanka. Það segir okkur það algerlega miðað við að ekki eru nema 14% sem vilja söluna.

Enn og aftur á að taka hagsmuni fjármálaelítunnar fram yfir hagsmuni heimilanna. Það vekur einnig athygli hve afmarkað efni er við bankana, en hvað með fjármálakerfið og hvað með t.d. lífeyrissjóði, tryggingafélög, samspil þeirra eins og var hérna áður fyrr í bönkum? Það virðist lítið vera tekið á því.

Meiri hluti landsmanna treystir ríkinu sem eiganda bankanna, en vantraust og spilling skapaðist eftir söluna á bönkunum síðast. Þannig verður sala á eignarhlut í bönkunum aldrei til að losa ríkið við áhættuna af bönkunum þar sem þeir geyma innstæður landsmanna.

Íslendingar eru framarlega í tækni og rafrænum greiðslum. Því er alveg óskiljanlegt að einn af stærstu bönkunum, Landsbankinn í eigu ríkisins, er að spá í að byggja höfuðstöðvar á einum dýrasta reit Reykjavíkurborgar. Og eftir öllu að dæma mun það kosta einhverja tugi milljarða að reisa þá byggingu, á sama tíma og tækninni fleygir fram. Ég segi fyrir mitt leyti að miðað við byggingarkostnað hjá ríkinu má búast við að það fari vel fram yfir það, þetta verði vel á annan tug milljarða sem á að fara að eyða í höfuðstöðvar og það hérna niður í miðbæ á dýrasta reitnum. Ég tel að þeim peningum væri miklu betur varið í annað. Það er sko örugglega þörf fyrir þá.

Við verðum líka að muna að bankarnir eru búnir að gefa arð á síðustu fimm árum yfir 200 milljarða. Ég er eiginlega enn þá í sjálfu sér, og sennilega stór hluti þjóðarinnar, með óbragð eftir bankahrunið. Ég held að við verðum að gefa okkur tíma. Við verðum að passa okkur. Við verðum að fara varlega. Og við eigum að hlusta og hlusta vel og vandlega á meiri hluta þjóðarinnar. Yfir 60% vilja að ríkið eigi bankana áfram. Og eins og áður hefur komið fram, 14% vilja selja.

Miðað við þetta ætti ekki að vera nema bara sjálfsagður hlutur að við hinkrum við, gefum okkur tíma. Okkur liggur ekkert á. Bankarnir eru ekkert að fara eitt eða neitt. Það sem hefur verið gert áður hræðir. Það á að vera nóg til þess að við stöldrum við og hugsum okkar gang.