149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[19:26]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka ágæta umræðu um þetta mikilvæga mál. Ég ætla að halda áfram þar sem frá var horfið í minni ræðu, náði ekki að klára hana í fyrstu umferð, þá var ég kominn að því að ræða aðeins um Landsbankann. Ég er þeirrar skoðunar að við söluna á Landsbankanum, þegar að því kemur að þau skref verða stigin, a.m.k. að hluta til, verði bankinn seldur, þá held ég að sé mjög mikilvægt að rúmlega 30% verði í eigu ríkisins, svo að við getum alla vega haft neitunarvald.

Ég held líka að við eigum að nota tækifærið þegar að þessu kemur og endurreisa sparisjóðakerfið. Sparisjóðirnir hafa haft mjög jákvæð áhrif á samfélagið í gegnum árin og það er mikil eftirsjá að þeim af þessum markaði. Við vitum hvernig fór fyrir þeim og það er mikil eftirsjá. Í dag eru örfáir sparisjóðir starfandi og smáir í sniðum, en gera góða hluti á sínu svæði. Eins og við þekkjum var markmið sparisjóðanna þegar þeir voru stofnaðir að stuðla að auknum sparnaði meðal almennings og stuðla að efnahagslegum framförum, aðgangi fjármagns og vinna að félagslegum verkefnum. Starfsemin til að byrja með var einföld í sniðum og þeir einbeittu sér aðallega að smáum innlánshöfum og litlum útlánum til einstaklinga og minni fyrirtækja, en létu viðskiptabankana sjá um stærri viðskiptavini. Þá var yfirleitt viðhöfð varfærni í útlánum. Í mínum huga er mikilvægt að það verði skoðað hvað Landsbankann varðar að endurreisa sparisjóðakerfið.

Mig langar næst aðeins að víkja að því sem kemur fram á bls. 169 í hvítbókinni, en þar er rætt um kostnað við eigið fé. Fullyrt er að krafa um hátt eiginfjárhlutfall geti leitt til þess að fjármálaþjónusta verði dýrari en ella. Hér finnst mér höfundar vera að ýja svolítið að því að nauðsynlegt sé að lækka kröfuna um eiginfjárhlutfall og ef til vill er það rétt, en af fenginni reynslu held ég að við verðum að fara þar mjög varlega. Það er vissulega spurning hversu skynsamlegt það er að láta mikla fjármuni liggja í bönkunum. Það hefur komið fram í þessari umræðu og kom m.a. fram hjá hv. þm. Óla Birni Kárasyni. Þarna eru háar upphæðir sem eru bundnar inni og engum til gagns, ef svo má segja, peningar sem væri hægt að nýta í hin ýmsu samfélagsverkefni. En ef það á að slaka á eiginfjárhlutfallinu verður að tryggja það með regluverki þannig að ekki verði til staðar freistnivandi, þ.e. að menn geti ekki nýtt sér aðstæður til þess að maka krókinn, ef svo má að orði komast.

Ég tel mikilvægt að reynt verði eins og kostur er að fá alþjóðlegan banka hingað til lands og að opnað verði fyrir regluverk þannig að aðstæður séu fyrir evrópskra banka til að starfa hér ef vilji og geta er fyrir hendi.

Á bls. 179 og áfram er fjallað um umgjörðina um neytendavernd á fjármálamarkaði, þess getið að stofnanaumgjörðin sé flókin og nauðsynlegt að setja heildstæð lög um neytendavernd. Ég tek heils hugar undir þetta. Þetta er afar mikilvægt og það er mikilvægt að styrkja Neytendasamtökin og Fjármálaeftirlitið og neytendavernd Fjármálaeftirlitsins sérstaklega með tilliti til kostnaðar vegna lögmanna. Þegar aðilar ákveða að fara í mál við bankana eða þurfa alla vega að leita réttar síns gagnvart bönkunum, þegar einstaklingar lenda í þeim aðstæðum, er það því miður allt of algengt að bankarnir spyrna iðulega kröftuglega við. Það er einfaldlega staðreynd að það er allt of dýrt fyrir einstaklinga að leggja í slíka vegferð og því verður að breyta.

Í þessu sambandi vil ég að lokum koma aðeins inn á fyrirhugaða sameiningu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans. Það er lítið rætt um þetta í hvítbókinni. Eins og við þekkjum þá er Seðlabankinn lánveitandi til þrautavara og útgefandi að öllum ríkispappírum, en síðan er það Fjármálaeftirlitið sem hefur eftirlit með öllu því sem gefið er út. Þetta fer ekki saman að mínum dómi, að sami aðili sé útgefandi og hafi síðan eftirlit með útgáfunni. Það væri (Forseti hringir.) hugsanlega hægt að færa einstök verkefni eða breyta hlutverki þessara stofnana, en (Forseti hringir.) þær eru ólíkar og ég hefði viljað sjá að um þetta (Forseti hringir.) hefði verið fjallað í hvítbókinni.

Að öðru leyti þakka ég fyrir, forseti, ágætar umræður og þakka hæstv. fjármálaráðherra sömuleiðis.