149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

störf þingsins.

[15:01]
Horfa

Albert Guðmundsson (S):

Virðulegi forseti. Nú á dögunum var kynnt skýrsla átakshóps ríkisstjórnarinnar um aukið framboð á íbúðum og aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði. Tillögum hópsins, sem voru 40 talsins, hefur verið vel tekið og eru þær gott innlegg í kjaraviðræður og skref í áttina að því að ná sátt á vinnumarkaði og ættu að vera góður grunnur að því að leysa uppsafnaðan húsnæðisvanda þjóðarinnar.

En þó svo að nauðsynlegt sé að byggja á góðum grunni er góður grunnur aðeins hálfur sigur og brýnt að grípa til frekari aðgerða sem fyrst. Ekki þarf að fara mörgum orðum um vandann sem ríkir á húsnæðismarkaði en það ástand sem upp er komið bitnar einna verst á yngra fólki og þeim sem efnaminni eru. Má í því samhengi nefna að fjöldi heimilislausra hefur tvöfaldast á síðustu fimm árum og er það staðreynd sem eflaust enginn er stoltur af.

Það er því örlítið kaldhæðnislegt að húsnæðismál séu enn þá hálfpartinn heimilislaus málaflokkur. Þó svo að ákvarðanir hafi verið teknar í þá átt að sameina málaflokkinn undir einn hatt mætti ganga miklu lengra því húsnæðismál eru enn of tvístruð í stjórnkerfinu og teygja anga sína á milli a.m.k. þriggja ráðuneyta sem gerir það að verkum að ekki er auðvelt að taka ákvarðanir á skjótan hátt og fylgja þeim eftir. Á Norðurlöndunum eru húsnæðismálum t.d. mun betur fyrir komið og liggur ábyrgð á málaflokkunum aðeins á einu ráðuneyti í hverju landi og hafa Danir m.a. sérstakt samgöngu-, byggingar- og húsnæðismálaráðuneyti.

Þó að ég sé ekki að stinga upp á því að stofnað sé sérstakt ráðuneyti fyrir húsnæðismál þá spyr ég hvort ekki sé upplagt að allir angar húsnæðismála sem tengjast úrbótatillögum í nýútkominni skýrslu séu sameinaðir undir eitt ráðuneyti, a.m.k. á meðan kjaraviðræður standa yfir, en húsnæðismálum í heild fundið varanlegt heimili með tíð og tíma. Til að tryggja að tillögur komi til framkvæmda sem fyrst er nauðsynlegt að lágmarka flækjustig og greiða leiðina að því að hægt sé að taka ákvarðanir og ábyrgð á verkefninu liggi á skýrum stað.