149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að gera hér að umtalsefni svokölluð lýðvísindi, sem er kannski nýtt hugtak fyrir ykkur mörg, kallað „citizen science“ á ensku. Árið 1950 var stofnað hér Jöklarannsóknarfélag Íslands, einstakt á heimsvísu. Þar vinna stórir hópar, annars vegar leikmanna og hins vegar vísindamanna, að jöklarannsóknum.

Við þekkjum þetta víðar. Við þekkjum þetta úr fuglafræðum. Við þekkjum þetta úr fornleifarannsóknum, veiðimenn skila ákveðnum gögnum og lyfjarannsóknir fara fram með þátttöku almennings og gagnasöfnun og öðru slíku. Ég er hér að reyna að tala fyrir eins konar átaki í þessum efnum, að auka þátttöku almennings: Að laða fleiri að slíkum lýðvísindum, auka skilning á mikilvægi lýðvísinda í samtímanum og styrkja samvinnu milli vísindamanna og almennings að þessu leyti. Ég bendi þá á að það er augljós gagnsemi af þessu. Það er beinn peningasparnaður, það er ákveðin fræðsla. Verið er að mennta almenning, getum við sagt, mennta leikmennina sem taka þátt. Og síðast en ekki síst fer þarna fram efling rannsókna.

Með einhverjum ráðum, umræðum og tillögugerð — ég er ekki endilega að segja að hún komi frá Alþingi — þarf að búa til samstarfsvettvang þeirra sem taka þátt með einhverjum hætti. Setja þarf einhvers konar, við skulum segja viðmið í þessum efnum og annað slíkt og efla lýðvísindi í landinu með þessu móti.

Við glímum jú við mikla áskorun í samtímanum eins og þið vitið. Það eru þessar stórskornu breytingar í umhverfi okkar allra sem m.a. þarf að glíma við með rannsóknum og vísindum. Ein leiðin til lausna í þeim efnum er einmitt að virkja almenning enn betur en góð saga sýnir. Við þurfum öll hér í þingsal að leggjast á eitt við að auka (Forseti hringir.) og koma þessu starfi í gott horf.