149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það liggur fyrir að þingið fær á næstu dögum til umfjöllunar tillögur samgöngunefndar um nýja samgönguáætlun, endurskoðaða samgönguáætlun. Í stuttu máli virðist sem lýsa megi meðhöndlun meiri hlutans á málinu svona: Búið er að taka meira og minna allt fé af suðvesturhorni og dreifa annað. Á móti skal koma sérstök gjaldtaka á íbúa suðvesturhornsins til að greiða fyrir þær framkvæmdir sem hér verður náðarsamlegast ráðist í. Ekkert er tekið á málefnum almenningssamgangna. Ekkert er tekið á brýnum úrbótarverkefnum í stofnæðum borgarinnar og ekkert er brugðist við brýnni uppbyggingarþörf heldur það skilið eftir sem algerlega óskilgreint verkefni til næsta hausts.

Það sem má ráða af tillögu meiri hluta nefndarinnar, þótt lítt útfærð sé enn þá, er að lagðir verði til einhvers staðar á bilinu 7–10 milljarðar í viðbótargjöld á íbúa suðvesturhornsins til að fjármagna þær aðgerðir sem skal ráðist í. Og nú skal það sagt skýrt að sá sem hér stendur er í grundvallaratriðum ekki andvígur veggjöldum séu þau rétt meðhöndluð og skilgreind, sé ljóst að það fjármagn sem af veggjöldunum hlýst fari eingöngu til þeirra framkvæmda sem verið er að rukka fyrir. Það er alls óljóst að svo sé hér.

Mér finnst nokkuð kómískt þegar ég horfi á áform meiri hlutans að sömu þingmönnum og áttu ekki orð yfir áformum fyrri ríkisstjórnar um 4 milljarða hækkun kolefnisgjalda á umferð, hækkun sem hefur reyndar þegar verið framkvæmd að stærstum hluta af þessari ríkisstjórn, finnst lítið tiltökumál að leggja 8–10 milljarða sérstaklega á íbúa suðvesturhornsins. Það hjálpar kannski sömu þingmönnum að þau áform stjórnarmeirihlutans vinna ekki með okkur í aðgerðum okkar í loftslagsmálum, í aðgerðum til (Forseti hringir.) að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og til að styrkja almenningssamgöngur. Þetta er mjög skemmtileg þversögn í starfi meiri hlutans. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)