149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að gera að umtalsefni fréttir sem birtust í morgun. Við höfum haft hér einstaklega mildan vetur. Nú koma nokkrir frostadagar í röð og þá fáum við þær fregnir að Orkuveita Reykjavíkur verði að virkja viðbragðsáætlun sína vegna þess að það geti orðið skortur á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta kemur mjög á óvart. Þetta vekur upp spurningar um öryggi höfuðborgarsvæðisins þegar kemur að heitu vatni og hitaveitu, eitthvað sem við höfum ekki átt að venjast að þurfa að hugsa um í áratugi. Til að ná hámarksnýtingu á jarðvarmaauðlind þá er hún gjarnan samnýtt til raforkuframleiðslu og jarðvarmaframleiðslu. Þannig er virkjað fyrir jarðvarmaframleiðsluna, þ.e. heitavatnsframleiðsluna, en um leið er auðlindin nýtt til raforkuframleiðslu.

Eigandaákvörðun er um það hjá Orkuveitu Reykjavíkur að það sé virkjunarstopp. Það birtist okkur að mínu viti í þessum afleiðingum. Það er þó auðvitað líka mikil óvissa varðandi rammaáætlun og afgreiðslu hennar og má vera að það setji fyrirtækinu einhverjar skorður auk vandræða í skipulagsmálum fyrir austan. Það þarf auðvitað að skoða alveg sérstaklega.

Það tekur allt að tíu ár, virðulegur forseti, að koma upp jarðvarmaveitu frá því að ákvörðun er tekin og þar til að framkvæmdum er lokið. Það sama á við um raforkuframleiðslu. Það tekur tíu ár frá því að menn ákveða að byggja virkjun þar til að hún er komin í notkun. Það er skoðun einhverra að það þurfi ekki að virkja meira í þessu landi. Við þurfum þá að svara þeirri spurningu hvaðan orkan eigi að koma ef þeirri stefnu á að fylgja. Heitt vatn og raforka er hluti af lífsgæðum landsmanna. Hér eru ekki sól og strandir heldur leyfum við okkur að vera með (Forseti hringir.) 100 opnar sundlaugar allt árið um kring í landinu og við höfum heita potta og við bræðum snjó af göngustígum og bílaplönum. (Forseti hringir.) Við þurfum að skoða þetta alvarlega, virðulegur forseti.