149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Í næstu viku er áætlað að ég muni mæla fyrir máli sem stendur mér mjög nærri og er mér mikið hjartans mál. Það er þingsályktunartillaga um heildarendurskoðun lögræðislaga. Mig langar að drepa aðeins niður í greinargerð með þingsályktunartillögunni sem ég hyggst eins og fyrr segir flytja í næstu viku. Ég vona að ég fái að gera það og vona að ég fái sem mestan stuðning á þingi.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir, með leyfi forseta:

„Mannréttindum er ætlað að hafa efnislegt gildi og raunverulega þýðingu. Það viðhorf til réttinda fólks skín í gegn við lestur greinargerðar með ályktun Alþingis um stefnu og framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks sem lögð var fram í byrjun árs 2012.

Þáverandi velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson, lauk framsöguræðu sinni á þeim orðum að með samþykkt tillögunnar yrði „haldið áfram á þeirri braut sem miðar að því að vernda og tryggja að allt fatlað fólk njóti fullra og jafnra mannréttinda og frelsis, auk þess að vinna að virðingu fyrir meðfæddri göfgi fatlaðs fólks“. Tillagan með áorðnum breytingum var samþykkt samhljóða á Alþingi síðar sama ár sem varð til þess að margvíslegir ferlar fóru af stað. Einn helsti liður framkvæmdaáætlunarinnar sneri að undirbúningi fullgildingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Vinna við breytingar á lögræðislögum var hluti af því ferli þó að með henni hefðu einnig verið fleiri markmið.“

Varpað hefur verið ljósi á nauðsyn þess að endurskoða lögin.

„Lögð hafa verið fram formleg tilmæli um úrbætur á lögunum, m.a. í skýrslum nefndar Evrópuráðsins gegn pyndingum. Nefndin hefur heimsótt Ísland fjórum sinnum og gert athugasemdir við lög og verklag innan geðheilbrigðiskerfisins sem ekki þykja tryggja réttindi notenda með fullnægjandi hætti. Nefndin gerði m.a. alvarlegar athugasemdir við skort á tilteknum verndarráðstöfunum sem tryggðar skyldu í lögum. Af hálfu nefndarinnar var ljóst að hvorki gildandi ákvæði laga né framkvæmd þeirra stæðust alþjóðlegar skuldbindingar. Fullt tilefni var því til endurskoðunar lögræðislaga.“

Þingsályktunartillagan mín leggur til að fram fari heildarendurskoðun á lögræðislögum og að þingnefnd skipuð fulltrúum allra flokka fari með þá vinnu. Ég hvet ykkur til að koma með mér í þann leiðangur.