149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég hef áður sagt það hér í púlti að listamannalaun eru 392.498 kr., sem er næstum því framfærsluviðmiðið, það sem þarf til að lifa af hér á landi á mánuði. Hæstv. forsætisráðherra sagði um listamannalaun að þau væru veitt til þriggja mánaða, sex mánaða og níu mánaða. Það eru ekki margir sem fáir slík laun lengur en í ár og er þau eyrnamerkt tilteknum verkefnum.

Dæmin hafa sýnt að listamenn hafa verið á launum áratugum saman og stundað tvær vinnur. Milljarðar eru í bið hjá ríkisstjórninni til að afnema krónu á móti krónu skerðingar. Á sama tíma er ríkið einnig að breyta höfundagreiðslum þannig að hugverk teljist til fjármagnstekna og verði skattlögð þannig en ekki sem launatekjur.

Eru ekki allir jafnir fyrir lögum? 65. gr. stjórnarskrárinnar segir það.

Sem betur fer á núna um næstu mánaðamót að hætta að skattleggja styrki til þeirra sem fátækastir eru. Það átti að gera það 1. janúar en Tryggingastofnun ríkisins treysti sér ekki til að gera það fyrr en 1. febrúar. Við erum að tala um fólk, öryrkja, sem eru á hálfum listamannalaunum og það er verið að skerða þessar hálfu bætur, sem eru rétt 200.000 kr., skerða allar tekjur sem þeir fá. Það er allt skert. En við erum búnir að finna rétta framfærsluviðmiðið, búnir að finna rétta hljómgrunninn, sem eru listamannalaun. Þau skerðast ekki neitt, sama hverjar tekjurnar eru.

Þess vegna gerum við kröfu um það að öryrkjar og eldri borgarar sitji við sama borð. Okkur ber skylda til þess í þessum þingsal að sjá til þess að ekki sé verið að mismuna. Að ekki sé verið að mismuna fólki, þeim sem fátækastir eru. Við vitum að búsetuskerðingar eru enn þá til staðar. Þar er verið að skerða fólk sem hefur varla nokkrar tekjur. Við hljótum að gera kröfu um það nú þegar að við hættum því og sjáum til þess að allir séu jafnir fyrir lögum.