149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

almenningssamgöngur og borgarlína.

[15:48]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Samgöngumál varða landsmenn alla, en almenningssamgöngur varða íbúa alls heimsins, núlifandi sem ófædda. Þess vegna fagna ég umræðunni því að ef við gerum ekki neitt, eins og virðist vera stefnan hjá núverandi stjórnvöldum, mun fjöldi einkabíla í umferðinni hér á suðvesturhorninu aukast um 40% á næsta rúma áratug.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar er minnst á uppbyggingu almenningssamgangna með þeim orðum að áfram þurfi að byggja upp almenningssamgöngur um allt land og að stutt verði við borgarlínu. Þetta eru fögur orð en staðreyndirnar tala sínu máli. Öll sveitarfélög á landinu hafa sagt upp samningi sínum við ríkið er varðar almenningssamgöngur og það er ljóst að ríkisstjórnin ætlar engu að breyta því, því að ekkert er um slíkt átak í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar við samgönguáætlun hæstv. samgönguráðherra til næstu fimm eða 15 ára.

Síðastliðið haust var undirrituð viljayfirlýsing sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins um að aðilar mundu standa saman að þeirri gríðarlega mikilvægu uppbyggingu sem borgarlínan er, sem er hvort tveggja nauðsynleg til að tryggja umferðarflæði og öryggi, sem og að minnka kolefnislosun landsmanna.

Við verðum að gera meira en að setja bara orð á blað um hugmyndir og áform, herra forseti. Það þarf að tryggja fjármagn. Þar óttast ég, og sé reyndar ekki betur en að ríkisstjórnin ætli sér ekki að setja nauðsynlegt fjármagn í borgarlínu. 800 milljónir duga ekki til, og það veit ráðherra vel. 2,25 milljarðar er það framlag sem ríkið þarf að setja í þetta verkefni ár hvert. En það er ekkert um það í fjármálaáætlun, ekki í fjárlögum og ekki í breytingum við samgönguáætlun.

Þess vegna verð ég að spyrja, hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra: Ætlar ríkið ekki að standa við það samkomulag sem gert var við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu? Hvar eru peningarnir?