149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

almenningssamgöngur og borgarlína.

[15:50]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir að taka upp þetta mikilvæga mál og setja það á dagskrá, og ég þakka samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni, fyrir að vera hér til svara.

Samgöngumál eru í mínum huga ein stærstu innviðamál okkar Íslendinga. Til þess að byggð geti þrifist og blómstrað um Ísland allt þurfa samgöngur að vera í lagi. Það er í raun besta fjárfesting sem við getum ráðist í, þ.e. að búa til góða vegi úti um allt land. Spurningar málshefjanda snúast nær allar um borgarlínuna, sem er í sjálfu sér í góðu lagi, og að umferð muni aukast um ríflega 40% til ársins 2033 og að umferðartafir verði 25% meiri en í dag ef ekkert verður að gert.

Í allri umræðu um almenningssamgöngur gerum við kröfu um að fá bætta þjónustu fyrir borgarana gegn auknum fjárframlögum. Það hefur valdið vonbrigðum að sjá hversu lítill árangur hefur náðst í því átaki sem gert var í almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við samninga milli ríkis og borgar. 1 milljarður á ári var veittur í almenningssamgöngur í stað þess að fjárfesta í uppbyggingarverkefnum á höfuðborgarsvæðinu. Verkefnið er nú á sjötta ári. Árangurinn er sá að í upphafi þess var heildarhlutfall ferða á höfuðborgarsvæðinu sem farnar voru með strætó 4%. Í dag, 6 milljörðum og sex árum síðar, er hlutfallið enn 4%.

Við verðum að þora að spyrja okkur gagnrýnna spurninga í þessum efnum. Hvers vegna næst enginn árangur? Getur verið að árangurinn af því að fjárfesta tugi milljarða í svokallaðri borgarlínu verði sambærilegur?