149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

almenningssamgöngur og borgarlína.

[15:55]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Höfuðborgarsvæði framtíðarinnar þarf samgöngukerfi framtíðarinnar. Inni í því eru líka sjálfkeyrandi bílar. Sú áætlun sem gert er ráð fyrir með borgarlínu styrkir kerfið á hvorn veginn sem er, hvort sem komnir verða upp sjálfkeyrandi bílar eða sjálfkeyrandi strætisvagnar í staðinn, eða hvað sem það nú verður. Framtíðin þarf að byrja núna miðað við þau gögn og þær upplýsingar sem við höfum í þessum málum. En staðan er sú að við erum með samgönguáætlun sem liggur fyrir þinginu og búið var að afgreiða út úr nefnd, og við erum með fjármálaáætlun. Þær áætlanir fjármagna ekki þær aðgerðir sem fara þarf út í, það er rétt byrjað á undirbúningsfasa, þannig að ég held aðeins niðri í mér andanum.

Ég hlakka til að sjá endurskoðaða fjármálaáætlun núna í lok mars, byrjun apríl. Þá kemur í ljós hvað er í hendi hvað borgarlínuna varðar. Ég hlakka til að heyra hæstv. samgönguráðherra koma með smáinnlegg inn í þá umræðu, svona smáframtíðarsýn á fjármálaáætlunina sem er í vinnslu.

Ég vil líka þakka flutningsmanni fyrir að minnast á heiti fyrirbærisins og það rifrildi sem orðið hefur þar um. Hér voru haldnar sveitarstjórnarkosningar þar sem borgarlínan var gerð að kosningamáli, „pólaríserandi“ kosningamáli, sem áramótaskaupið fór mjög vel yfir hvernig virkaði. Ég vil kalla það gríðarlega óábyrga pólitík. Einfaldlega sagt: Það er engin sviðsmynd sem við sjáum sem gerir ráð fyrir neinu öðru en því kerfi sem borgarlínan setur upp, hvaða nafni sem hún nefnist.

Þannig að ég hvet áfram til ábyrgra stjórnmála, að halda áfram með vinnuna við borgarlínuna, að hún verði fjármögnuð í fjármálaáætlun. Hún er það ekki í samgönguáætlun enn þá, en (Forseti hringir.) það þarf víst að endurskoða hana.