149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

almenningssamgöngur og borgarlína.

[15:57]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Ég þakka málshefjanda. Það er ljóst að hlutur stórhöfuðborgarsvæðisins í heildarfjárframlagi ríkissjóðs til samgöngumála er mun minni en hlutfall tekna ríkissjóðs af ökutækjum sem eru á þessu sama stórhöfuðborgarsvæði. Það er eitt af þessum málum þar sem ríkir skilningur á samfélagslegu réttlæti þess að dreifa fjármunum með slíkum hætti, enda yrði næsta lítið um framkvæmdir í hinum dreifðari byggðum ella. En nú er verið að ganga mun lengra í álögum á íbúa stórhöfuðborgarsvæðisins með væntanlegri samgönguáætlun.

Í umsögn meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar við þessa áætlun kemur fram að ekki er gert ráð fyrir að fjárframlag ríkissjóðs til samgönguframkvæmda lækki vegna gjaldtöku á þeim framkvæmdum sem nefndin leggur til að verði fjármagnaðir með vegtollum, þ.e. á meginstofnæðarnar þrjár út frá höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar verði það svigrúm sem myndast nýtt til að flýta tilteknum framkvæmdum í samræmi við markmið samgönguáætlunar og til að auka fé til viðhalds og framkvæmda á tengivegum og styrkvegum. Svigrúmið er þá það sem er inni í fjárframlögum ríkissjóðs vegna framkvæmda við þessar þrjár meginstofnbrautir vegna þess að vegtollarnir koma inn og íbúar höfuðborgarsvæðisins munu bera hitann og þungann af því. Það leggst ekki ofan á fjárframlög ríkissjóðs til þessara framkvæmda heldur kemur í staðinn og fjárframlagi ríkissjóðs verður úthlutað í annað en ekki í borgarlínu.

Herra forseti. Um þetta ríkir ekki samfélagsleg sátt. Þá veltir maður fyrir sér, í samhengi við það sem við ræðum hér núna, hvað gæti búið til slíka sátt. Hvað með skýrt og bindandi samkomulag ríkisstjórnar með vilja Alþingis við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, samkomulag sem tryggir fulla fjármögnun borgarlínu? Ekki loðið orðalag um að við ætlum að stefna að því, ekki að seinna verði samið um útfærslu, ekki baktjaldamakk um að höfuðborgarbúar borgi brúsann þar líka, til viðbótar við eldsneytisskattinn, sem fer að mestu annað og svo vegtolla.

Af hverju er ekki hægt að ganga frá slíku bindandi samkomulagi um leið og samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar? Ef eitthvað er ófrágengið, eitthvað vantar enn þá til að hægt sé að ganga (Forseti hringir.) frá slíku samkomulagi, þá er ekki hægt að ganga frá samgönguáætlun strax. Þetta verður ekki skilið í sundur, ekki frekar en yfirlýst markmið stjórnvalda í (Forseti hringir.) loftslagsmálum, ekki frekar en markmið í húsnæðismálum.(Forseti hringir.)

Herra forseti. Borgarlínan er lykillinn að lausninni.