149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

almenningssamgöngur og borgarlína.

[16:00]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu. Borgarlína, er þetta ekki bara strætólína, er þetta ekki bara einkavegur fyrir strætó? Mér finnst borgarlína vera eitthvert flott orð til að réttlæta ýmsa hluti. Jú, borgarlína væri mjög fín. Þetta er svona einkavegur fyrir strætó og þetta hefur verið reynt á mörgum stöðum, t.d. í Noregi og þar var t.d. líka leyft að tveir eða fleiri í bíl mættu nota þennan veg. En er þetta samt afsökun fyrir því að hefta för einkabílsins?

Arnarnesvegur, t.d. á mörkum Reykjavíkur og Kópavogs, þar er rifist um mislæg gatnamót eða ljósastýrð. Þetta rifrildi hefur staðið frá því að fyrsti áfanginn var tekinn 2004. Ég spyr: Er þetta til þess að þvinga borgarlínu inn? Ég get ekki ímyndað mér að þröskuldurinn á þessum gatnamótum frá 2004 sé bara út af því hvort það eigi að vera mislæg gatnamót eða ljósastýrð. Það er búið að gera kröfu um þetta. Sjúkraflutningamenn, slökkvilið. Þetta er dauðans alvara. Það er búið að gera kröfu um þennan veg en hann kemur ekki. Erum við að þvinga fram eitthvað sem 4% nota á kostnað öryggis almennings? Eins og vegurinn er t.d. núna byggður þá er stórhættuleg beygja á honum. Ég vil að við tökum þetta allt til endurskoðunar og við hljótum að horfa á þetta í heild sinni. Við getum ekki horft á borgarlínu og á sama tíma gert ekkert vegna þeirrar stíflu sem er hérna kvölds og morgna fyrir einkabílinn.