149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

almenningssamgöngur og borgarlína.

[16:02]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu. Hún er mikilvæg. Meirihlutaálit umhverfis- og samgöngunefndar um samgönguáætlun hefur enn þá ekki verið lagt fram en það er stutt í það. Það er mjög margar blaðsíður. Það kom fjöldi gesta fyrir nefndina. Það var alveg ljóst að það var mjög almennur áhugi á góðum almenningssamgöngum, hvort sem var innan höfuðborgarinnar eða utan. Og um allt þetta er fjallað í nefndarálitinu að því marki sem unnt er.

Borgarlínan, þar er talað um að heildarupphæðin á 10–15 árum sé um 110 milljarðar og það er sett fé, bæði af hálfu borgarinnar og ríkisins, 50:50, í undirbúning. Enn fremur er rætt um næstu tvö skref, þ.e. hvað borg og hvað ríkið mun leggja í næsta áfanga. Það er því auðvitað fjallað um þetta í álitinu, það er ekki svo að þar standi ekki neitt. Það er líka farið eftir þeirri viljayfirlýsingu sem hefur komið fram milli ríkis og borgar um borgarlínu. Ástæðan fyrir því að þarna er ekki tafla um hina fullfjármögnuðu borgarlínu er að samráðið er í gangi og það er ekki hægt að byggja það inn fyrr en orðið er ljóst hvert verður stefnt í þeim efnum.

Veggjöldin skipta máli á stofnæðunum vegna þess að þegar þær koma inn í Reykjavík er verið að framkvæma ýmsar framkvæmdir sem gagnast borgarlínunni. Það er hins vegar alveg ljóst að innri gjöld þarf á höfuðborgarsvæðinu til þess að borgarlínan komist raunverulega í gagnið. Þannig hefur verið mjög gagnlegt að horfa til Óslóar t.d. þar sem þetta hefur tekið 15–20 ár. Það er enn fremur alveg ljóst að það er bæði búið að bjarga (Forseti hringir.) almenningssamgöngum úti á landi árið (Forseti hringir.) 2019 og leggja drög að heildarstefnu nú þegar (Forseti hringir.) um almenningssamgöngur á landinu öllu.

(Forseti (JÞÓ): Forseti minnir þingmenn á að halda ræðutíma.)