149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

almenningssamgöngur og borgarlína.

[16:05]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við almenningssamgöngur og borgarlínu, sem er afar mikilvægt verkefni. Eins og fram hefur komið stendur yfir umfangsmikið samráð ríkisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til að móta áætlanir um framtíðaruppbyggingu samgangna. Ákveðnum áföngum hefur verið náð í samstarfinu og viljayfirlýsingin liggur fyrir, en frekari vinna er fram undan.

Fram hefur líka komið að takist að breyta ferðavenjum þannig að fleiri noti almenningssamgöngur, hjóli eða gangi, muni bílaumferð samt sem áður aukast um 23–24%. Takist hins vegar ekki að breyta ferðavenjum mun umferð bíla aukast um a.m.k. 40% á sama tíma. Það er mikið í húfi fyrir alla sem ferðast um höfuðborgarsvæðið að það takist að byggja upp samgöngukerfi sem tryggir greiða og örugga umferð með sem minnstum umhverfisáhrifum, sama hvaða ferðamáta menn kjósa. Til þess þarf að skilgreina og efla meginsamgönguleiðir. Allar þessar leiðir þurfa að vera vel tengdar milli svæða innan höfuðborgarsvæðisins og við stofnleiðir út fyrir höfuðborgina.

Almenningssamgöngur í landinu verða að mynda eina heild á landi, í lofti og sjó. Að þessu er stefnt og vinna í gangi á ýmsum stöðum, bæði úti um landið og í samstarfi sveitarfélaga. Borgarlínan er grunnur að raunverulegum valkosti í almenningssamgöngum innan höfuðborgarsvæðisins sem hágæðakerfi aðgreint frá annarri umferð. Í breytingartillögum meiri hluta við samgönguáætlun er áætlað fjármagn til undirbúnings á árunum 2019 og 2020. (Forseti hringir.) Það sem liggur fyrir núna er að útfæra sameiginleg markmið og fjármögnun (Forseti hringir.) þannig að hægt verði að forgangsraða (Forseti hringir.)og sú forgangsröðun (Forseti hringir.) verði tilbúin fyrir næstu endurskoðun samgönguáætlunar sem verður vonandi innan árs.(Forseti hringir.)

(Forseti (JÞÓ): Forseti minnir þingmenn aftur á að halda ræðutíma. Reglan sem hann fylgir er að eftir 10 sekúndur verður svona viðstöðulaust en þó lágt og létthent bjall, en eftir 15 sekúndur verður það ansi hávært, sem er mjög óþægilegt fyrir þá sem heima sitja. Það er á ábyrgð þingmanna.)