149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

almenningssamgöngur og borgarlína.

[16:07]
Horfa

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu enda eru öflugir samgönguinnviðir gríðarlega mikilvægir fyrir lífskjör og lífsgæði landsmanna allra, þar með talið Reykvíkinga. Þessir innviðir mynda lífæðar samfélagsins okkar. Undanfarin ár hefur fjárfesting í vegasamgöngum verið vanrækt alvarlega á meðan umferð hefur aukist stórlega. Um leið verðum við að horfa til þess hvernig við getum dregið úr losun koltvísýrings og gert nógu mikið til að það skipti máli. Þetta er stærsta verkefni okkar kynslóðar, okkar sem hér erum, og við þurfum að taka það mjög alvarlega.

Þegar við skoðum fjárfestingar í samgönguinnviðum og í þróun í samgönguþjónustu verðum við því að taka ákvarðanir sem stuðla að breyttri ferðahegðun. Það þýðir lítið að segja fólki að nota almenningssamgöngur ef valkostir í þeim efnum eru fáir, undirfjármagnaðir og vondir. Almenningssamgöngur eru samgönguinnviðir eins og vegir og mislæg gatnamót og á að fjármagna sem slíka. Innviðauppbygging sem þessi á að vera hluti af reglubundnum fjárfestingum ríkissjóðs en hvorki í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar né fjárlögum sjáum við það fjármagn sem til þarf til uppbyggingar almenningssamgangna.

Ef við horfum til höfuðborgarinnar sérstaklega þá sýna sameiginlegar niðurstöður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðarinnar um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu að án breyttra ferðavenja muni ástandið í umferðinni versna til muna á 15 ára tímabili samgönguáætlunar eins og fólk hefur vísað hér í. Án aðgerða muni umferðarmagn aukast um 40% og tafatími um 24%. Þetta hefur verið talið hér upp nokkrum sinnum en það er gott að ítreka það.

Raunhæfir ferðavalkostir í öflugum almenningssamgöngum eru eina leiðin til að minnka tafatíma á álagstímum á höfuðborgarsvæðinu og draga úr mengun. Það munu einfaldlega fleiri nota almenningssamgöngur eins og borgarlínu ef þær eru byggðar upp. Það er gert ráð fyrir að ríkið veiti 300 millj. kr. framlag til undirbúnings og framkvæmda vegna borgarlínu árið 2019 (Forseti hringir.)og 500 millj. kr. árið 2020, gegn sambærilegu mótframlagi frá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

(Forseti hringir.)Það liggur hins vegar fyrir að sameiginlegur heildarkostnaður ríkis og sveitarfélaga vegna fyrsta áfanga við (Forseti hringir.) uppbyggingu borgarlínu er 42 milljarðar kr. og það skiptist með jöfnum hætti á milli ríkis og sveitarfélaga. (Forseti hringir.)

Ég vil því spyrja hæstv. samgönguráðherra hér við undirleik: (Forseti hringir.) Hvar sjáum við fjárhagsskuldbindingu ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) til borgarlínu? Ef mér þætti ekki svona vænt um íslenska tungu (Forseti hringir.) þá myndi ég jafnvel ganga svo langt að vísa í fræga bíómynd,(Forseti hringir.) með leyfi forseta: „Show me the money.“