149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

almenningssamgöngur og borgarlína.

[16:11]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Almenningssamgöngur eru af ýmsum toga, bæði flugleiðis, á landi og með ferjum. Það verður að segjast eins og er að á öllum þessum sviðum hefur ríkisvaldið undanfarin ár dregið lappirnar. Nú er reyndar svo komið að menn ætla að taka af flugvöllinn í Reykjavík, sem er lífæð þeirra almenningssamgangna á landinu, á næstu árum og ekki er ljóst hvað á að koma í staðinn. Við erum með ófullnægjandi ferjutengingar, bæði í Breiðafirði og á milli lands og Eyja, sem sér í sjálfu sér ekki alveg fyrir endann á þrátt fyrir nýtt rafvætt skip og mikinn sandaustur fyrir suðurströndinni. En síðan eru aftur á móti þau atriði sem snúa að þessu svæði, sem eru náttúrlega mikilvæg því hér býr lunginn af íbúum landsins.

Ég hef ekki enn þá hitt þann mann sem getur sagt mér hvað borgarlína er. Á hátimbruðum auglýsingaskiltum lítur þetta út fyrir að vera jarðlest eða eitthvað slíkt, en því fer fjarri. Samt hafa menn fengið sig kosna inn í borgarstjórn út á slík plaköt, en plaköt flytja ekki fólk.

Það sem þarf að gera er að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu og það er hægt að gera t.d. með þéttari ferðatíðni. Það hefur verið gert í Danmörku í borg af svipaðri stærð og Reykjavík þar sem Álaborg er, þar sem strætisvagnasamgöngur eru algerlega til fyrirmyndar. Þar streymir fólki í strætó af því að hann kemur ekki bara á hálftímafresti, heldur miklu oftar.

Í allri þessari umræðu verð ég að stinga að einni hugmynd sem ég hef haldið á lofti í nokkur ár og fáir taka undir til þess að leysa brýnan vanda í umferðarþunganum á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem maður er á einkabíl eða í strætisvagni eða einhverju öðru. Það er að gera Miklubraut að einstefnuakstursgötu til austurs frá (Forseti hringir.) Njarðargötu upp að Ártúnsbrekku og á sama hátt Sæbraut upp frá sama stað og að Snorrabraut, (Forseti hringir.) einstefnuakstursgötu til vesturs. (Forseti hringir.) Þarna væri hægt að koma fyrir sérakrein fyrir strætó (Forseti hringir.) og sjúkrabíla og þarna myndu allir komast áfram. (Forseti hringir.) Ofaníkaupið væri síðan hægt að (Forseti hringir.) samtengja (Forseti hringir.) bæði umferðarljósin sem eru á þessari leið, þannig að umferð allra yrði greiðari en hún (Forseti hringir.) verður í annan stað.