149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

almenningssamgöngur og borgarlína.

[16:18]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Borgarlínan er að verða eitt af þeim málum þar sem kristallast hvort fólk skynji nýja veröld í mótun eða hvort það sé svo hrifið af fortíðinni og þeirri reglu hlutanna sem þá gilti að það sjái ekki nýja tíma við sjóndeildarhringinn. Ekki ósvipað því sem var með hlýnun jarðar sem tók ýmsa mörg ár eða áratugi að horfast í augu við og aðrir eru enn að þybbast við að viðurkenna.

Það verður að segjast eins og er að vandræðagangur ríkisstjórnarinnar í málefnum borgarlínu hefur komið nokkuð á óvart. Í ríkisstjórninni eru fyrrverandi borgar- og varaborgarfulltrúar, t.d. Katrín Jakobsdóttir, Svandís Svavarsdóttir og líka Guðlaugur Þór Þórðarson sem ættu að þekkja þau viðfangsefni sem blasa við í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins. Þau ættu að vita að þær umferðarteppur verða ekki leystar með fleiri akreinum, mislægum gatnamótum með hærri hámarkshraða. Við vitum líka að Reykjavíkurborg vill frekar lækka hraða og fækka akreinum á helstu stofnæðum hér vestur frá og ekki vilja íbúar Hlíðahverfis að gatan sem klýfur hverfi þeirra verði breiðari og meiri hraðbraut. Ekki frekar en að Garðbæingar vilji breiðari hraðbrautir í gegnum bæinn sinn.

Sú leið að byggja sig út úr vandanum með meiri hraðbrautum er úr sögunni. Þrátt fyrir þetta er borgarlínan svo mikið tabú í hópi sumra ráðherra að þau þora varla að segja orðið upphátt. Það er meira að segja svo að þegar aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum var fyrst lögð fram var ekki minnst einu orði á borgarlínu, sem þó myndi skipta sköpum fyrir þann árangur sem þar er stefnt að, ekki einu orði.

Fyrir núverandi ríkisstjórn virðist orðið borgarlína vera eins og Macbeth í leikhúsinu, orðið sem ekki má nefna. Samkvæmt skýrslu Mannvits vitum við að dýrasta leiðin til að leysa samgönguvandann er að byggja upp bílaborg. Ódýrasta leiðin er blönduð leið bíla og borgarlínu, sem er einmitt sú leið sem sveitarfélögin hér, gamlir og nýir meiri hlutar — og rétt er að geta þess að þeir sem voru á móti borgarlínu eru hvergi í meiri hluta — en allir þessir gömlu og nýju meiri hlutar hafa viljað fara þessa blönduðu leið, en því miður er hún enn ríkisstjórninni mikill þyrnir í augum.