149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

almenningssamgöngur og borgarlína.

[16:21]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Já, borgarlínan, 4% noti hana, hún er flott, en hún leysir t.d. ekki vanda fólks sem býr í Setberginu í Hafnarfirði sem er lokað inni kvölds og morgna á háannatímanum og strætó er líka lokaður inni, hann þarf líka að komast þarna inn og út til þess að komast síðan í borgarlínu eða strætólínuna, á einkaveg strætó.

Fyrir nær 40 árum þegar ég flutti í Hafnarfjörð var þar ofanbyggðavegur. Hann er horfinn. Þá var maður tíu mínútur, korter úr Hafnarfirði í bæinn, sama á hvaða tíma það var. Í dag má maður þakka fyrir ef það tekur 45 mínútur, stundum klukkutíma, jafnvel lengst tvo tíma aðra leið. Þá á maður eftir að komast til baka.

Það sem við þurfum að horfa á er bæði svokölluð borgarlína og líka að leysa þennan vanda bílsins, að geta komist frá A til B. Við þurfum að hafa ofanbyggðaveg. Við þurfum að hafa Sundabraut, við þurfum jafnvel að setja veg yfir Skerjafjörðinn. Við verðum að finna einhverjar lausnir. Ef við finnum ekki neinar lausnir þá verður 40% aukning umferðar á einkabílnum. Hvað þýðir það þá? Verður fólk þrjá, fjóra tíma að komast úr Hafnarfirði til Reykjavíkur í framtíðinni? Ég efast um að nokkur muni sætta sig við það. Og hugsið ykkur alla þessa mengun þegar þúsundir bíla eru fastir í klukkutíma á leiðinni, bara þessa stuttu leið úr Hafnarfirði til Reykjavíkur. Það er ekki nein smá mengun og einhvern veginn verður að leysa það. Þess vegna segi ég að við verðum að leysa bæði þessi vandamál, ekki bara annað.