149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

almenningssamgöngur og borgarlína.

[16:23]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég vil byrja á því að segja að mér finnst að málshefjandi svona umræðu eigi að eiga lokaorðið í þeirri umræðu. Þar með er umkvörtunum mínum lokið, enda ekki stórvægilegar.

Hér hefur átt sér stað mikil og góð umræða að mestu leyti og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr og greinargóð svör og góðan vilja sem fram kom í hans máli áðan. Einhverjir hv. þingmenn hafa gert eitthvað úr því og reynt að búa til eitthvað sem á að heita vandræðagangur ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Ég ætla að leyfa mér það, forseti, að benda á að hann er ekki meira en svo að við erum að byrja á borgaralínu. Það er býsna stór áfangi þó að við viljum sum sjá að stigið verði fastar til jarðar, farið hraðar í þær framkvæmdir. Það er það sem við erum m.a. að ræða hér.

Hér hefur verið rætt um áætlanir. Ég er ekki mikill áætlanamaður almennt í lífinu en ég horfi þó vonaraugum til tveggja áætlana, annars vegar fjármálaáætlunar sem hér hefur komið fram og hins vegar samgönguáætlunar. Það er mín von að almenningssamgöngur verði fyrsta forgangsmálið þegar við leggjum fram endurskoðaða samgönguáætlun, hvenær sem hún verður. Síðan hefur verið komið inn á einn þátt hugmyndarinnar um borgarlínu sem við höfum kannski minnst rætt hér, eðlilega, sjálfur skipulagði ég þessa umræðu þannig að hún snerist um almenningssamgöngur. Það er nefnilega hárrétt sem kom hér fram í umræðunni að borgarlínan er miklu meira en það. Borgarlínan er líka skipulagsmál. Þess vegna rímar hún svo vel við hugmyndir aðgerðahóps um húsnæðismál sem voru kynntar fyrir ekki svo löngu síðan. Þar var t.d. rætt um uppbyggingu Keldnahverfisins sem er einmitt hluti af hugmyndum um borgarlínu. Ég velti upp þeirri hugmynd hvort mætti ekki flýta framkvæmdum. Þetta ynni saman, annars vegar í húsnæðismálum og hins vegar samgöngumálum, þannig að hægt væri að gera þetta (Forseti hringir.) eins fljótt og kostur er og fyrr en menn sá kannski fyrir sér í upphafi.