149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

almenningssamgöngur og borgarlína.

[16:25]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka líka fyrir fína umræðu í dag. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sem hefur ekki verið hrifin af blandaðri leið Framsóknarmanna, eða Framsóknarmönnum almennt, tók sérstaklega undir að mikilvægt væri að fara hina blönduðu leið. Ég er svo sammála, enda erum við að leggja upp með blandaða leið sem nokkrir þingmenn hafa komið inn á, þ.e. bæði í stofnleiðaframkvæmdunum og almenningssamgöngunum.

Svo verð ég aðeins að nefna eitt og ætla ekki að eyða miklu púðri í það. Hv. þm. Helga Vala Helgadóttir, sem er fulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd, hefur fjallað um samgöngumál og það er orðið hvimleitt og leiðinlegt að þurfa æ ofan í æ að leiðrétta staðreyndavillur sem hér eru fluttar af henni úr þessum ræðustól. Það er óþolandi. Ég ætla ekki að eyða lengri tíma í það.

Staðan er þessi: Samskipti ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa aldrei verið betri hvað varðar að ná samkomulagi um uppbyggingu annars vegar almenningssamgangna og hins vegar stofnvega. Sama sýn er á hvað það þýðir ef við gerum ekkert og hvað það þýðir það sem við ætlum að gera sameiginlega. Vinnan hefur hins vegar tekið ákveðinn tíma. Hún var auðvitað ekki tilbúin síðastliðið vor undir kosningarnar. Það tók allt haustið að fá þessa sameiginlegu sýn eftir nýafstaðnar sveitarstjórnarkosningar. Það hefur tekist, þannig að vinnan núna er samhliða fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Við erum búin að tryggja sameiginlega fjármuni ríkisins og sveitarfélaganna næstu tvö ár til að leggja af stað í almenningssamgöngurnar.

Við erum líka búin að tryggja hina eðlilegu forgangsröðun í stóru vegaframkvæmdunum og við erum á sama tíma að horfa á almenningssamgöngur hringinn í kringum landið, við erum búin að tryggja að þær eru í góðum farvegi á árinu 2019, eins og hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson kom inn á. Við erum með öðrum orðum að ganga nákvæmlega þau skref sem við lofuðum að gera og jafnvel hraðar og lengra en við sáum fyrir að hægt væri vegna þess að þetta samkomulag var ekki komið, þessi sameiginlega sýn sem þó er komin núna. Þess vegna munu fjármunirnir til borgarlínunnar, til almenningssamgangnanna sjást í fjármálaáætluninni (Forseti hringir.) og í samkomulaginu við sveitarfélögin en ekki á næstu dögum. Það er fáránlegt, óskhyggja, bull og vitleysa, svo að ég segi það hér, að ætlast til þess að hægt sé að ganga frá hlutunum áður en menn hafa unnið vinnuna sína og gengið frá því almennilega. Faglegheit skipta máli við uppbygginguna. (Gripið fram í.)