149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[17:01]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við höfðum þann háttinn á að í raun var samráðið mjög opið. En það er auðvitað alltaf þannig að öllum finnst að þeir eigi að koma fyrr að málum, það er bara lífsins gangur í samráði. En fyrsti fundurinn sem var haldinn var með opinberum stofnunum. Síðan var haldinn fundur með tilteknum félögum, fagfélögum og stéttarfélögum, Alþýðusambandinu, BSRB og öðrum slíkum. Síðan var boðað til opins heilbrigðisþings og við lögðum upp úr því að þar væru til að mynda fulltrúar sjúklingafélaga. Það var mjög breiður hópur sem mætti á heilbrigðisþing og gríðarlega mikið af upplýsingum og athugasemdum komu þar inn sem vel var unnið úr. Ég vil halda og vona að það útskýri að hluta til að í samráðsgáttinni voru ekki nema 27 umsagnaraðilar — maður hefði fyrir fram haldið að um svo stórt og mikið mál væri að ræða að fleiri umsagnir bærust á því stigi.

En ég vænti þess að þegar þingið hefur fengið málið til umfjöllunar muni nefndin fá þessar athugasemdir til sín. Mér finnst mikilvægast, þegar við erum að tala um samráðið, að við horfum á það í hverju athugasemdirnar liggja, þ.e. um hvað þær ábendingar sem berast snúast, frekar en tímasetningu aðkomunnar. Þegar öllu er á botninn hvolft getur svona heilbrigðisstefna ekki verið einhvers konar meðaltal eða lægsti samnefnari eða eitthvað slíkt, heldur þarf að vera einhver heildarhugsun þar.

Ég verð að segja, miðað við þær athugasemdir sem hafa borist, að ég er mjög ánægð með þann tón sem er í heilbrigðisstefnunni eins og hún er lögð fram til þingsins, þó að athugasemdir hafi komið fram sem lúta fyrst og fremst að tímasetningum aðkomu. Ég treysti hv. velferðarnefnd til að fjalla um þetta sérstaklega.