149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[17:03]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og hlakka verulega til vinnunnar í velferðarnefnd, þar sem við tökumst á og fáum gesti. Ég sé að hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson brosir ekki, en við leysum þetta. Það er annað sem mig langar að nefna og það varðar stöðumatið. Þegar maður leggur af stað í svona stefnumótunarvinnu, ef gagn á að vera að, þarf ákveðin gagnasöfnun að vera fyrir hendi. Ég hef ákveðnar áhyggjur af skorti á gögnum og kem kannski nánar inn á það á eftir. En mig langar líka að velta fyrir mér hvort hæstv. ráðherra býr að einhverjum gögnum sem safnað var fyrir þessa vinnu. Það er ekki í skjalinu og það eru ákveðnar tölulegar upplýsingar, einhver þarfagreining og annað slíkt. Mig langar til þess að fá upplýsingar hjá hæstv. ráðherra, áður en lengra er haldið, hvar staðan er tekin og hvaðan þær upplýsingar koma. Það er ekkert launungarmál að helsta hagdeild heilbrigðismála er Landspítalinn. Er það hagdeildin sem var nýtt? Eru það tölurnar sem við notum? Bara svo maður viti hvaðan þær koma. Það er fyrri spurning mín.

Ég ætla líka að fá að nota tækifærið hér og spyrja hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra, úr því að hann stendur hér og hann nefndi heilbrigðisáætlunina sem kemur í kjölfarið: Hvert verður vinnulagið þá? Verður hún sett í samráðsgátt? (Forseti hringir.) Verður hún lögð fram sem þingsályktunartillaga næsta haust? (Forseti hringir.) Er það framhaldið af þessu?