149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[17:06]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar til að byrja á að óska hæstv. ráðherra til hamingju með þessa heilbrigðisstefnu því að hún er bara ótrúlega góð. Ég hlakka til að fá hana inn í velferðarnefnd, fá gesti og umsagnir um málið og vinna hana áfram.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Í greinargerðinni er talað um nýjar leiðir um skipulag á heilbrigðiskerfum og þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Breytingarnar hafa meðal annars falist í því að sameina þjónustuþætti, setja á fót svokölluð þekkingarsetur og loka einingum sem ekki standast kröfur um gæði, öryggi og skilvirkni. Að baki býr vitneskjan um að mannauður og annar auður sem heilbrigðiskerfið byggist á sé takmarkaður og því sé betra að þjappa saman færni, kunnáttu og þekkingu frekar en að dreifa kröftunum um of.“

Mig langar aðeins til að biðja hæstv. ráðherra um að útskýra nánar hvað felst í þessu og hvort þetta sé einhver stefna sem heilbrigðisráðherra hefur gengið út frá nú þegar. Og hvort búið sé að taka einhver skref í þessa átt. Og hvaða skref þau hafa verið í raun og veru, af því að ég las mig aðeins til um „centres of excellence“. Þetta er áhugaverð pæling og ég væri til í að heyra aðeins betur hvernig ráðherra hugsar þetta.