149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[17:08]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni heillaóskirnar. Það sem ég er nú montnust af er að enn þá skuli vera janúar, en þetta er á þingmálaskrá í mars. En það er bara persónulegt stöðumat.

Af því að hv. þingmaður spyr um svona þekkingarmiðstöðvar og það hvernig hægt er að ýta þróun áfram með því að kalla saman þekkingu á einn stað, þá myndi ég kannski vilja nefna í því sambandi þróunarmiðstöð heilsugæslunnar. Hún snýst í raun og veru um að halda til haga því sem best er að gerast í heilsugæslunni, bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti um land, að beina þekkingu og framþróun frá höfuðborgarsvæðinu út á land og til baka, þannig að við séum með einhvers konar vettvang þar sem við getum verið að þróa þekkingu og horfa til framtíðar óháð búsetu. Þetta er svona eitt dæmi sem er komið til framkvæmda en ekki endanlegt dæmi í þessum efnum.

Af því að hv. þingmaður spyr um hvað sé í raun og veru þarna undir, þá er því til að svara að við erum allan tímann að tala um það sem ég nefndi áðan, þ.e. að við vitum hverjir gæðavísarnir eru og við vitum hver árangurinn á að vera og við þekkjum mælikvarðana í kerfinu öllu, vegna þess að eins og kerfið okkar er núna, þó að það sé gott á heimsmælikvarða, það er gott á öllum mælikvörðum, þá er það samt þannig að við sitjum uppi með óhóflega bið sums staðar eftir þjónustu og á öðrum stöðum er sannarlega verið að veita of mikla þjónustu. Meðan það er svo að við höfum ekki þessa yfirsýn erum við stöðugt að lenda í slíkum þáttum. Ég hef trú á að heilbrigðisstefnan muni hjálpa okkur til að sjá þetta allt saman skýrar.