149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[17:10]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar til að fylgja þessu eftir með því að spyrja hvort hluti af þessu sé að færa þjónustu eða beina fólki í auknum mæli að hinu opinbera frekar, því að það eru náttúrlega öll þessi frjálsu félagasamtök. Er það einhver vinkill í þessu líka? Ég hef tekið eftir því að þetta hefur dálítið verið stefna hjá hæstv. ráðherra, að reyna að færa þjónustuna meira til hins opinbera og spyr hvort þetta sé hluti af því.

Svo langar mig líka til að spyrja um eitt markmið sem kemur fram í stefnunni varðandi vinnutíma, að „vinnutími og vaktabyrði starfsfólks verði í samræmi við bestu gagnreyndu þekkingu, lög og kjarasamninga.“ Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvað þetta þýðir; í samræmi við bestu gagnreyndu þekkingu. Telur hæstv. ráðherra ekki þörf á að taka það sérstaklega fram, t.d. með að létta á vaktabyrði og minnka vinnutíma? Ég veit að það er reifað í greinargerðinni (Forseti hringir.) sem mikilvægir hlutir. Hvers vegna er það þá ekki hreinlega bara eitt af markmiðunum?