149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[17:12]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi vinnubyrðina á starfsfólkið er þetta eitt af því sem við erum að tala um á hverjum degi. Í dag hitti ég fulltrúa frá Læknafélagi Íslands sem fóru með mér yfir nýjustu rannsókn þeirra að því er varðar kulnun lækna í starfi. Og við þekkjum vaktaálag hjúkrunarfræðinga o.s.frv. Þetta er eitt af því sem þarf að taka til skoðunar og þetta er orðað þarna með þessum hætti, það er þingsins og nefndarinnar að meta það hvort megi taka þar dýpra í árinni.

Hv. þingmaður spyr hvort það sé eitthvert sérstakt áhugamál hjá ráðherranum að færa þjónustu til opinberra aðila. Það er ekki sérstakt áhugamál hjá ráðherranum að gera það. En hins vegar er það sérstakt áhugamál hjá mér að styrkja hið opinbera kerfi, af því að ég sé það alls staðar í kringum okkur þar sem heilbrigðiskerfi eru sterk að kjölfestan þar er sterkt opinbert heilbrigðiskerfi.

En ég vil líka nefna, af því að hv. þingmaður talar um samhengi hlutanna, að við leggjum auðvitað líka áherslu á að það sé alltaf vettvangur fyrir heilbrigðisstarfsfólk (Forseti hringir.) að vinna með öðrum, að vinna í teymum o.s.frv., til að þróa sig áfram og veita betri þjónustu, að við séum ekki, og þá sérstaklega úti á landi, með of dreifða (Forseti hringir.) þjónustu eða þá á höfuðborgarsvæðinu með (Forseti hringir.) heilbrigðisþjónustu þar sem fáir veita þjónustuna. (Forseti hringir.) Við vitum að góð þjónusta hvílir oft á öflugu faglegu samstarfi og teymisvinnu.