149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[17:13]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna framlagningu þessarar heilbrigðisstefnu og hlakka mikið til þessarar umræðu. Tilkoma stefnunnar er kannski ekki síst góð fyrir þá umræðu sem við tökum hér, að við veltum fyrir okkur hvernig kerfi við viljum hafa, hvernig það þróast og hvernig staðan er. Ég held að þetta sé frábært tækifæri til að opna umræðuna og fá hugmyndir og fá sem flesta að borðinu. Ég hlakka mikið til þess í velferðarnefnd.

Heilbrigðisstefna snýst náttúrlega fyrst og fremst um það hvaða þjónusta þarf að vera til staðar í okkar landi. Hvernig forgangsröðum við henni og hvernig á að veita þessa þjónustu? Hvar á að veita þessa þjónustu? Þetta eru allt þættir sem við þurfum að átta okkur á og þá þarf líka að búa til einhverja mælikvarða. Hvaða þjónustu ætlum við að kaupa og af hverjum og hvernig fylgjumst við með því að við fáum þjónustuna sem við kaupum? Þetta þarf allt að spila saman.

Flestar fréttirnar undanfarið eða bara undanfarin misseri eða ár um heilbrigðiskerfið eru um álag á Landspítalann, ástandið þar og annað slíkt. Þá þurfum við að hugsa svolítið um kerfið, hvar við viljum veita þjónustuna og hvaða aðra möguleika við höfum. Eins og núna varðandi álagið á bráðadeildirnar, við þurfum kannski bara að taka ákvörðun um að byggja upp alvörubráðadeildir á öðrum stöðum, sérstaklega í Kragasjúkrahúsunum næst okkur eins og á Selfossi, í Reykjanesbæ, á Akranesi, í Vestmannaeyjum og víðar, á þessum stærri stöðum. Þá þarf ekki að flytja jafn mikið fólk frá þessum stöðum inn á Landspítalann, sem eykur álagið þar, og þá er hægt að veita betri þjónustu heima í héraði og við drögum úr sjúkraflutningum og álagi annars staðar í kerfinu.

Samhliða þessu verður líka að hafa í huga þær miklu breytingar sem eru að verða. Heilbrigðiskerfi okkar er svolítið byggt upp með tilliti til íbúafjölda en íbúafjöldi segir bara svo lítið í dag. Til dæmis í því samfélagi sem ég bý í, Grindavík, þar sem búa yfir 3.300 íbúar, koma fleiri en sem nemur öllum íbúafjöldanum á hverjum einasta degi í Bláa lónið, starfsfólk og gestir. Og það eru virkir einstaklingar. Ég nefni áhrifasvæði Öræfajökuls, Skaftafell og þar í kring. Þar eru kannski að jafnaði um 150 íbúar á hverjum tíma í mesta lagi, bæði skráðir íbúar og þeir sem vinna þarna tímabundið, en virkir GSM-símar hjá Veðurstofunni, sem er með rýmingaráætlun á þessu svæði, eru 2.500 á hverjum degi. Öll þjónustan er hins vegar byggð upp fyrir þessa 150 þannig að það eru björgunarsveitarmennirnir tveir sem sinna öllum verkefnunum, eru sjúkraflutningamenn, slökkviliðsmenn, björgunarsveitarmenn. Það er að vísu fleiri virkir í björgunarsveitinni Kára en þetta lendir svolítið mikið á sömu einstaklingunum aftur og aftur.

Við þurfum að fara að hugsa þjónustuna út frá þessu og líka að hugsa um aðrar leiðir. Við þekkjum systemið, það var alltaf héraðslæknirinn sem gat gert allt. Nú er þetta svolítið öðruvísi og þá þurfum við að hugsa, eins og hefur verið nefnt hérna, um teymisvinnu og annað slíkt. Hvað geta hjúkrunarfræðingar gert mikið? Hvaða geta fjarlækningar komið mikið inn, hvað geta sérhæfðir viðbragðsaðilar sinnt miklu af því sem bæði læknar og hjúkrunarfræðingar sinntu áður? Getum við þróað nám í þessu saman? Hvaða úrlausnir höfum við? Eigum við að færa í meiri mæli sérhæfða aðstoð á vettvang með þyrlum og flugvélum og öðrum fararskjótum þannig að við séum með teymi sem fer um? Það er margt sem við þurfum að huga að.

Þá langar mig að sameina hérna svolítið næstu umfjöllunarefni um eitt, það er viðbragðið. Það getur skipt svo miklu máli varðandi hvaða álag verður og hvaða þjónustu heilbrigðisþjónustan þarf að veita, bæði veikum og slösuðum. Það getur skipt sköpum hvernig fyrsta viðbragðið er. Ef fyrsta viðbragðið er snöggt og rétt þá getum við dregið verulega úr þörf á þjónustu annars staðar og afleiðingum atburðarins. Þess vegna þarf bráðaþjónusta utan spítala að vera mjög vel skipulögð.

Þá vil ég koma inn á það sem var rætt aðeins áðan: Hvernig búum við til skipulag innan kerfisins þannig að við beitum bestu aðferðum hverju sinni? Þar var nefnt Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar sem ég held að sé mjög gott. Þar er safnað allri faglegri þekkingu og þróun og skipulagi og pælingum á einn stað. Það er ekki endilega verið að bæta við kerfið heldur er þessum upplýsingum bara safnað á sama staðinn þar sem fólk er að ræða þetta, tala um það hvernig við getum menntað þennan geira sem mest og hvernig við getum þróað betri aðferðir og nýjar bjargir. Þetta er það sem ég held að við þurfum að horfa á í utanspítalaþjónustunni. Við erum með yfirlækni utanspítalaþjónustu á einum stað, við erum með þá sem sjá um sjúkrabílana á einum stað og sjúkraflugið einhvers staðar allt annars staðar. Svo erum við með landlækni sem er með einhvers konar eftirlit og við erum með fagráð sjúkraflutninga á ólíkum stöðum. Þetta er allt dreift, enginn fókus. Þarna held ég að sé hægt að ná árangri. Þetta höfum við gert í lögreglunni með mennta- og starfsþróunarsetri lögreglunnar þar sem þetta var allt sameinað á einn stað og gert miklu öflugra og það hefur strax skilað miklum árangri. Ég held að það sé einhvern veginn svona sem við eigum að horfa á þetta.

Hvernig náum við markmiðum um hagkvæmara skipulag og meiri þróun og hvernig stundum við nýsköpun í heilbrigðisgeiranum? Við verðum að tryggja það að fólk sem er með hugmyndir að rafrænum lausnum, nýjum aðferðum og er ekki endilega læknar — það þurfa ekki allir að vera læknar í heilbrigðiskerfinu — hafi hvata til að vinna þær. Hvernig notum við sálfræðinga, sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga og lækna meira saman í teymisvinnu? Það þarf að vera hvati fyrir alla þessa nýsköpun. Við styðjum við nýsköpun í öllu sem við gerum hér og erum með mikla nýsköpunar- og tækniþróunarsjóði. Það fjármagn sem við erum að setja í nýsköpun, þessar áherslur, þarf að vera velkomið inn í heilbrigðisgeirann. Það er ekki gott eins og maður hefur heyrt af fólki sem er að reyna að feta þessa leið, að sameina bæði tæknigeirann og heilbrigðisgeirann í nýsköpun, að þá er sagt: Ef þú ert með einhverja aðra hugmynd þá er miklu auðveldara fyrir þig að fara bara í hana. Gleymdu þessu opinbera kerfi í kringum hana. Það er ekki gott að heyra það. Þetta verður að tryggja þennan hvata til að auka hagkvæmni heilbrigðisþjónustunnar og fjölga möguleikum og úrræðum þannig að við getum veitt fleirum betri þjónustu. Það verður að vera galopið fyrir nýsköpun inn í heilbrigðiskerfið. Ég tel það mikilvægt.

Svo þurfum við að hafa starfsfólkið mjög í huga. Við skulum ekki bara ákveða að það sé ekki hægt að fá starfsmann á þennan stað eða að þetta sé bara úrelt fyrirkomulag. Aðstæður eru svo ólíkar og við getum ekki horft á Ísland sem bara einn þátt, við eigum mikið af heilbrigðismenntuðu fólki úti um allan heim sem langar mögulega koma heim. Ef við bjóðum upp á einhverjar nýjar aðferðir eða meira frelsi eða eitthvert skemmtilegt fyrirkomulag þá gæti viðkomandi viljað koma heim. Nú eru samgöngur að lagast, tæknin og fjarlækningar að verða betri og þá eru kannski meiri líkur á því að íslenskir heilbrigðisstarfsmenn vilji vinna í auknum mæli heima, vilji t.d. búa í sveitinni seinni hluta starfsævi sinnar og sinna einhverri læknisþjónustu þar, þannig að við skulum passa okkur á að ákveða ekki fyrir fram að það vilji enginn vinna úti á landi eða það sé ekki hægt að veita heilbrigðisþjónustu á þessum stað af því að það fæst ekki neinn þangað. Bæði tæknin og fjölbreytileikinn getur hjálpað okkur í þessu og þá skulum við hafa í huga að það þarf ekki allt að vera veitt á Landspítalanum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við gerum það.

Það er hægt að tala um heilbrigðiskerfið í marga klukkutíma en að lokum vil ég bara nefna eitt sem við þurfum að hafa í huga: Hvernig getum við aukið fyrsta stigs viðbragðið í heilbrigðisþjónustunni þannig að við séum ekki alltaf að bregðast við á þriðja stigi, eins og ég vil kalla hjúkrunarheimilin. Hvernig getum við aðstoðað eldra fólk meira fyrr, veitt því meira öryggi heima hjá sér eða í þjónustuíbúðum þannig að við seinkum þriðja stigs viðbragðinu, mætum því fyrr? Þetta er það sem ég var að tala um áðan með viðbragðsaðilana. Þetta gildir líka um forvarnir og geðheilbrigðismál, hvernig við getum aukið fyrsta viðbragðið til að draga úr afleiðingunum þannig að við þurfum ekki að nota þriðja stigs viðbragðið.