149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[18:05]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. heilbrigðisráðherra og okkur öllum til hamingju með þetta plagg. Við erum komin áleiðis. Ég má til með að nefna að fyrir einu og hálfu ári síðan, eða þann 31. maí 2017, samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu þingflokks Framsóknarflokksins, lagða fram af þáverandi hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur, um að fela heilbrigðisráðherra að hefja vinnu við heilbrigðisáætlun fyrir Ísland í samráði við fagfólk í heilbrigðisstéttum. Nú erum við komin af stað með það plagg.

Í fyrirliggjandi tillögu er lögð áhersla á sjö meginviðfangsefni sem hvert og eitt hafa mismörg stefnumið sem síðan eru útskýrð í greinargerð. Ég ætla að tæpa á nokkrum sem mig langar að koma inn á.

Fyrsta meginviðfangsefnið er forysta til árangurs. Þar er fyrsta stefnumiðið að löggjöf um heilbrigðisþjónustu verði skýr og kveði afdráttarlaust á um hlutverk heilbrigðisstofnana og annarra sem veita heilbrigðisþjónustu og hvernig samskiptum þeirra skuli háttað. Í dag er mjög mismunandi þjónusta á starfsstöðvum heilbrigðisstofnana landsins og hefur verið kallað eftir skýrri stefnumörkun í heilbrigðisstefnu um hvaða þjónustu skuli veita á hverjum stað. Það var ánægjulegt að heyra í framsögu hæstv. heilbrigðisráðherra að verið er að skoða hvaða þjónusta er veitt á hverjum stað. Hún er mjög mismunandi yfir landið og kallað er eftir því að ef ákveðin þjónusta er í boði á einum stað sé hún það líka annars staðar, sem eðli málsins samkvæmt er ekki hægt og ekki alltaf eitthvað sem útskýrir af hverju þjónustan er einungis í boði sums staðar.

Það hafa orðið miklar breytingar á þjónustu heilbrigðisstofnananna á síðustu árum og eru væntingar íbúa í sumum tilvikum meiri en fjármagn til starfseminnar leyfir, sem helgast af viðhorfinu: Fyrst svona læknir kemur þangað vil ég líka fá hann hingað til mín. Ég tel að skýra þurfi betur hvaða þjónustu eigi að veita á starfsstöðvum heilbrigðisstofnananna og mér heyrist að það verði gert.

Liður tvö fjallar um fjármögnun, hlutverk og fjárhagslega ábyrgð ríkis og sveitarfélaga um veitingu heilbrigðisþjónustu, að hún verði vel skilgreind. Þrátt fyrir að komið hafi aukið fjármagn inn í heilbrigðisþjónustuna, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Óla Björns Kárasonar, lítur ekki út fyrir að við höfum náð rekstrarjafnvægi í heilbrigðisþjónustunni. Það má vera að hluta til vegna þess að hlutverk eininganna er ekki nógu vel skilgreint. Bæði ég og fleiri hafa væntingar til þess að slík skilgreining komi fram til þess að fólk átti sig á því hvaða þjónustu ber að veita á hverjum stað og væntingar séu ekki umfram fjármagn sem veitt er til þjónustunnar.

Í lið tvö er fjallað um rétta þjónustu á réttum stað. Þetta markmið tel ég mjög mikilvægt. Ef vel tekst til mun það hjálpa okkur að nýta fjármagnið í heilbrigðiskerfinu mun betur en gert er í dag. Það er til mikils að vinna ef tekst að beina notendum í auknum mæli í gegnum fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu, eins og heilsugæsluna, að hún verði fyrsta stopp í þjónustunni. Það fer mikill peningur í stig tvö þar sem fólk ætti að vera að leita þjónustu á fyrsta stigi. Annars stigs þjónusta, sérfræðiþjónusta utan háskólasjúkrahúss, er mjög breið, eins og síðasti ræðumaður kom inn á. Þar er að finna heilbrigðisstofnanir landsins. Í þingsályktunartillögunni er talað um að annars stigs þjónusta sé veitt meira og minna á öllum heilbrigðisstofnunum landsins. Þetta „meira og minna“ er svolítið óljóst orðalag og ég vænti þess að það muni taka breytingum í meðförum hv. velferðarnefndar og það verða skilgreint aðeins betur.

Í lið tvö er það 7. punkturinn sem vakti sérstaka athygli mína. Þar er talað um að aðgengi að heilsugæslu og þjónustu sérfræðinga á landsbyggðinni verði jafnað með fjarheilbrigðisþjónustu og vel skipulögðum sjúkraflutningum. Þess má geta að fjarheilbrigðisþjónusta er þegar farin af stað um landið og t.d. á Kirkjubæjarklaustri hefur hún verið í nokkurn tíma í tilraunaskyni. Það er þjónusta sem verður veitt í mun meira mæli hér á landi og er það vel. Ég hvet heilbrigðisráðherra áfram í þeim efnum, en líka er í byggðaáætlun að efla fjarheilbrigðisþjónustu.

Fyrst þegar ég las þetta fékk ég smá sjokk og hugsaði: Allt í lagi, fyrsta stigs heilbrigðisþjónusta er heilsugæslan, svo koma sérfræðilæknar og síðan háskólasjúkrahúsin. Eigum við á landsbyggðinni þá bara að vera með fjarheilbrigðisþjónustu? Svo ef hún virkar ekki förum við í sjúkraflutning í sjúkraþyrlunni sem verður á Selfossi? En ég jafnaði mig og áttaði mig á því að verið að bæta upp það sem á vantar, en talað er um að sérfræðiþjónusta geti að sjálfsögðu ekki verið öll á sama stað. Mun það án efa spara mikið fyrir Sjúkratryggingar Íslands í ferðum einstaklinga sem koma til Reykjavíkur til að hitta lækni og spjalla: Já, það hefur gengið ágætlega síðustu sex mánuði og svo þarf ég ekki að hitta þig aftur fyrr en eftir hálft ár og það er hægt að gera í gegnum fjarheilbrigðisþjónustuna.

Sjúkraflutningar og utanspítalaþjónusta eru málefni sem ég vona að verði gefinn sérstakur gaumur í þessari vinnu. Það er alveg ljóst að þar þarf að bæta netið og stuðla að aukinni menntun, þjálfun og ekki síst stuðningi við þá sem veita utanspítalaþjónustu vítt og breitt um landið. Þar hefur verið vaxandi álag undanfarin ár og verður spennandi að fylgjast með tilraunaverkefni um sjúkraþyrlur á Suðurlandi sem vonandi fer af stað á þessu ári, eins og veitt var heimild til í fjárlagafrumvarpinu. Ég get bara sagt að ég tek í raun undir hvert orð í ræðu hv. þm. Vilhjálms Árnasonar fyrr í dag um að þetta sé atriði sem við þurfum að huga mun betur að og sérstaklega þar sem mikið er um ferðamenn.

Ég sakna þó í umræðu um sjúkrahúsþjónustu á heilbrigðisstofnunum að ekki sé horft á samhengi sem var í hugmyndum Framsóknarmanna í þingsályktunartillögunni sem samþykkt var 2017, að huga að sóknarfærum í nýtingu sjúkrarýma á landsbyggðinni, sem getur létt álagi af Landspítalanum. Vonandi á það eftir að koma inn í útfærslu heilbrigðisstefnunnar. Þar eru t.d. Kragasjúkrahúsin í mjög góðu færi og auðvitað sjúkrarými víða á landsbyggðinni sem þjónusta fólk sem stríðir við minni háttar veikindi. Þau geta nýst mjög vel, t.d. í endurhæfingu, við að losa um dýrari úrræði á hærra stigi, sem háskólasjúkrahúsið og Sjúkrahúsið á Akureyri eru, og nýta þau til endurhæfingar þegar fólk þarf að styrkja sig áður en farið er heim.

Þriðja meginmarkmiðið, Fólkið í forgrunni, er metnaðarfullur kafli þar sem ekki er annað að sjá en að bretta eigi upp ermar og vinna hratt og vel til að ná þeim góðu markmiðum. Það er nokkuð ljóst að það þarf til að snúa þeirri ógnvænlegu þróun við sem skortur á fagmenntuðu heilbrigðisstarfsfólki er að sigla í. Þar megum við engan tíma missa. Stór hluti heilbrigðisstarfsmanna vinnur vaktavinnu og löngu ljóst að 40 stunda vinnuvika er mjög íþyngjandi fyrir vaktavinnufólk, hvort sem það eru heilbrigðisstarfsmenn eða aðrir sem vinna þrískiptar vaktir.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur kynnt hugmyndir að aðgerðum til að styðja við betri mönnun hjúkrunarfræðinga. Það er ljóst að launakjör og vinnutími, vinnuvikan, er stór hluti af þeirri lausn sem þarf að ræða þar. Fór hún ágætlega yfir þetta í ræðu og þakka ég fyrir það. Ég fagna því að sú vinna er farin af stað og eins og kemur fram í niðurlagi heilbrigðisráðherra á það líka við um aðrar stéttir, ekki aðeins hjúkrunarfræðinga.

Fjórða markmiðið er virkir notendur. Þar er áhersla á forvarnir og heilsulæsi og er það af hinu góða. Þetta er mjög flott en mætti bæta inn í stefnuna langveikum og þeim sem nota heilbrigðisþjónustuna mest.

Tíminn líður ótrúlega hratt þannig að ég ætla að hoppa í síðasta punktinn sem ég er með, kaflann Hugsað til framtíðar. Þingmenn hafa talað um nýsköpun í heilbrigðisþjónustu og þá vil ég leggja áherslu á velferðartæknina og benda á að hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir hefur lagt fram þingsályktunartillögu um velferðartækni sem bíður þess að vera lögð fram í þinginu. Ég vona að það gerist hratt og vel og verði samhliða heilbrigðisstefnunni.

Að lokum (Forseti hringir.) þakka ég fyrir og óska okkur aftur til hamingju með plaggið.