149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[18:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þessa yfirferð og þessa þingsályktunartillögu um heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Það er að sjálfsögðu gott að fá svona stefnu og hún er nauðsynleg, sumt er athyglisvert í henni og annað bara almennt orðað. Ég ætla að byrja á því að víkja aðeins að kaflanum Forysta til árangurs. Þar er í 7. lið rætt um ábyrgð og valdsvið stjórnenda stofnana. Í 8. lið segir að stjórnendur á öllum sviðum heilbrigðiskerfisins séu valdir út frá faglegri hæfni þar sem m.a. séu gerðar kröfur um leiðtogahæfileika og reynslu í stefnumiðuðum stjórnarháttum. Þetta er að sjálfsögðu afar mikilvægt. Það kom líka fram í umræðunni áðan að mikilvægt sé að við nýtum fjármuni vel, þær miklu og háu upphæðir sem fara í þetta kerfi. Það er að sjálfsögðu einnig á ábyrgð stjórnenda stofnana.

Ég nefni þetta hér vegna þess að á fund fjárlaganefndar komu í lok síðasta árs fulltrúar frá heilbrigðisráðuneytinu. Þar var verið að ræða fjárveitingar og stöðuna á nokkrum heilbrigðisstofnunum. Þá kom fram af hálfu ráðuneytisins að stjórnunarvandi væri á ákveðnum heilbrigðisstofnunum. Það er að sjálfsögðu áhyggjuefni og ég fagna því að þetta sé sett inn í stefnuna. En ég vil jafnframt hvetja heilbrigðisráðherra til að leita leiða til þess að tekið verði á svona málum, þau eru náttúrlega alvarleg að því leyti til að þetta bitnar á allri þjónustu og rekstri viðkomandi stofnana. Það er afar brýnt, segir þarna, eins og ég tek undir heils hugar, að um faglega hæfni sé að ræða á vegum þeirra sem gegna þessum störfum.

Ég ætla þá að víkja næst að kafla sem heitir Rétt þjónusta á réttum stað. Þar er rætt um, eins og hv. þm. Ásgerður K. Gylfadóttir nefndi áðan, að þjónusta sérfræðinga á landsbyggðinni verði jöfnuð með fjarheilbrigðisþjónustu og vel skipulögðum sjúkraflutningum. Hv. þingmaður nefndi einmitt svæðið Skaftárhrepp, Kirkjubæjarklaustur og þar í kring. Ég held að ég geti fullyrt að þar hafi þetta reynst vel og sé mikilvægt en að sama skapi er að sjálfsögðu mikilvægt að það sé þá starfsfólk á staðnum sem kunni á þessa tækni og við reynum að nýta okkur nýjustu og bestu tækni hverju sinni. Það er gott að sjá að þetta er þarna inni. En ég hugsaði svolítið á svipuðum nótum og hv. þm. Ásgerður K. Gylfadóttir þegar hún nefndi að þetta væri síðasta úrræðið sem það ágæta fólk á þessu svæði byggi við þegar sjúkraflutningarnir væru ekki heldur í boði. Vissulega er þetta mikilvægt og ég held að við eigum að nýta okkur þetta í auknum mæli. Það hefur að mínu viti gefið góða raun.

Síðan er kafli sem heitir Fólkið í forgrunni. Þar eru ágæt markmið út af fyrir sig. Ég tek undir það sem hv. þm. Óli Björn Kárason sagði hér áðan, það er afar mikilvægt að okkur takist að manna heilbrigðiskerfið. Hann nefndi dæmi um einstakling sem færi í nám í læknisfræði til Svíþjóðar og lyki námi en síðan væru því miður miklar líkur á því að viðkomandi settist að í Svíþjóð og kæmi ekki hingað. Það lýtur að sjálfsögðu að aðbúnaði hér heima, ýmsu varðandi kjör o.s.frv.

Það er mjög aðkallandi að fjölga starfsfólki í mörgum heilbrigðisstéttum og snúa við þessum atgervisflótta. Gerðar hafa verið fjölmargar kannanir til að meta hvað það er sem laðar fólk að starfi í viðkomandi greinum. Það eru náttúrlega þættir eins og laun og vinnutími og möguleiki á frítíma. Hér var vaktavinna nefnd. Það er ekki þægilegt að vinna vaktavinnu til margra ára. Það kemur niður á heilsufari fólks. Mikilvægt er að reyna að finna leiðir til að gera vinnutímann aðlaðandi. Það hefur verið þekkt til margra ára að vandamálið er að við erum að missa þetta menntaða fólk, oft og tíðum reynslumikla hjúkrunarfræðinga, í önnur störf. Skortur á hjúkrunarfræðingum hér á Íslandi er ekkert nýtt. Það hefur verið vitað um það vandamál í mörg ár og því miður hefur ekki verið brugðist við í tíma og ekki verið settar fram áætlanir til að reyna að sporna við því.

Við vitum að hjúkrunarfræðingar eru gjarnan taldir hryggjarstykkið í heilbrigðiskerfinu og flótti úr þessari grein stafar ekki síst af miklu vinnuálagi og lélegum kjörum.

Á Landspítalanum er mönnunarvandinn orðinn ærinn og víða í öðrum heilbrigðisstofnunum. Það stefnir í óefni ef ekkert verður að gert. Ég vil nefna dvalarheimilin sérstaklega. Þau hafa víða verið mönnuð af fólki sem er af erlendu bergi brotið, fólki sem talar því miður mjög takmarkaða íslensku. Þetta fólk sinnir starfi sínu ágætlega en það er mjög brýnt að heimilismenn geti átt samskipti við starfsfólk og því tel ég mikilvægt að sett verði fram einhvers konar áætlun um að í þessum tilfellum, þegar erlent starfsfólk er ráðið í þessi störf, sé gert átak í því að það læri íslensku.

Ég ætla að koma næst að því sem fjallað er um undir yfirskriftinni Skilvirk þjónustukaup. Þar er rætt um einkaaðila og ég hjó eftir því sérstaklega að hv. þm. Óli Björn Kárason nefndi að við værum ekki alltaf samstiga í samstarfi einkaframtaksins og ríkisins þegar kæmi að heilbrigðisþjónustu. Það er náttúrlega alveg ljóst að ríkisstjórnin er ekki samstiga í þessum efnum. Það er miður að mínu mati vegna þess að það býr margt mjög gott í einkaframtakinu sem við eigum að nýta okkur. Ég vil nefna hér sérstaklega Klíníkina sem veitir mjög góða þjónustu. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson nefndi þá löngu biðlista sem hafa verið eftir liðskiptaaðgerðum. Ég hef hitt fólk sem hefur sagt mér að það hafi þurft að bíða í allt að tvö ár eftir að komast í slíka aðgerð á sama tíma og það geti komist í slíka aðgerð hjá Klíníkinni á innan við tveimur mánuðum. Það sorglega við það, hæstv. heilbrigðisráðherra, er að þetta kostar jafnmikið. Það er sama upphæð sem þarf að greiða fyrir að fara í liðskiptaaðgerð hjá Klíníkinni og í liðskiptaaðgerð á Landspítala. Þessu verður að breyta og ég hvet ráðherra til að beita sér fyrir því að samið verði við Klíníkina hvað þetta varðar.

Ég sé að tíminn er orðinn naumur. Að öðru leyti vil ég þakka fyrir þessar umræður sem hafa verið ágætar. Hér hefur að sjálfsögðu verið lögð áhersla á að við rekum öflugt heilbrigðiskerfi, og ég tek heils hugar undir það. En þetta er alltaf spurning um fjármagn, spurning um forgangsröðun og að sjálfsögðu stefnumörkun. En okkar sameiginlega markmið er náttúrlega að heilbrigðiskerfið verði vel starfshæft og veiti góða þjónustu og um það snýst þessi stefna.