149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[18:56]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Þorsteins Víglundssonar um að þetta sé flott plagg. Til hamingju, hæstv. heilbrigðisráðherra, með það plagg. Ég rak augun í það sama og hann nefndi og það er kannski skortur á þessu með gæðavísa og eftirlit. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir talað hér áðan um blandað kerfi og einkarekið o.s.frv. Ég ætla ekkert að fara út í svoleiðis pólitík en eins og hv. þm. Þorsteinn Víglundsson drap á skiptir öllu máli hvernig sameiginlegum sjóðum almennings er varið og hvað almenningur fær fyrir þá peninga. Um það snýst heila málið.

Ég hef í gegnum tíðina gagnrýnt einkarekstur í heilbrigðiskerfinu en sú gagnrýni hefur fyrst og fremst snúist um skort á gæðavísum og virku eftirliti með þeim aðilum og stofnunum sem hafa sinnt einkarekna hlutanum í heilbrigðiskerfinu — mig langaði bara að koma því á framfæri. Það eru til leiðir. Ég hef talað við lækna hjá Læknafélagi Reykjavíkur og þeir eru með ýmsa gæðavísa að utan sem þeir byggja á. Ég held því að það sé auðvelt að koma þessu í kring þannig að þjóðin geti gengið að því sem vísu að fá sem besta þjónustu, sama hverjir sitja við stjórnvölinn.

Ég fagna langtímahugsun og framtíðarpælingum í heilbrigðismálum. Þá eru líka minni líkur á því að heilsa þjóðarinnar verði notuð í popúlískum tilgangi á fjögurra ára fresti fyrir hverjar alþingiskosningar.