149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[19:01]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að fagna tilkomu heilbrigðisstefnunnar og lýsa ánægju minni með að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur setið hér í allan dag. Það eru samt nokkrir hlutir sem ég vil taka til. Talað er um að sveitarfélögin hafi mikilvægu hlutverki að gegna og þá sérstaklega með þeirri þjónustu sem þeim ber að veita samkvæmt lögum, m.a. um málefni aldraðra. Það er hægt að segja að þetta sé með mikilvægari þáttum sem sveitarfélögin hafa á sinni könnu. Talað hefur verið um að sú stefna sem Akureyrarbær hefur tekið upp gæti átt við víða um land. Þar er gengið út frá þeirri nálgun að eldra fólk geti búið lengur heima hjá sér og mun sú stefna sem Akureyrarbær hefur haldið áfram með og sett sér kosta aðeins brotabrot af þeirri upphæð sem nú er sett í rekstur öldrunarstofnana. Með öðrum orðum: Við þurfum að mæta fólki þar sem það er hverju sinni og þó að það sé vissulega mikilvægt að reisa hjúkrunarheimili ætti það ekki að vera eina ráðið.

Undanfarin misseri hafa hljómað raddir um að huga þurfi að mönnun í heilbrigðiskerfinu. Það er rétt að við þurfum að huga að mönnun alls staðar og á öllum sviðum. Það er vissulega skortur á hjúkrunarfræðingum en það eru fleiri stéttir sem okkur ber að huga að. Það má nefna lækna og sjúkraliða og fleiri. Mér dettur í hug hvort það sé ráð að opna fyrir nemapláss víðar en nú er gert og þá helst um allt land, að námsplássum sé skipulega úthlutað o.s.frv. þannig að allir njóti. Fyrr í dag heyrði ég á svari hæstv. heilbrigðisráðherra að hún hefði sent heilbrigðisstofnunum ákall um hvernig mætti bregðast við því verkefni sem blasir við okkur. Það kemur einmitt fram í þessari áætlun að gert sé ráð fyrir því í samningum við starfsfólk að það sé undir það búið að taka að sér nema. Mér finnst það mjög góður kostur.

Það er líka ánægjulegt og mikið fagnaðarefni að fjölga eigi hjúkrunarfræðinemum við Háskólann á Akureyri. Mér finnst mjög mikilvægt í þessu sambandi að það komi fram að sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn eru einnig hluti af opinberu heilbrigðiskerfi, þ.e. ef samningur Sjúkratrygginga Íslands virkar eins og hann á að virka.

Ef við lítum á þjónustuna, sem á að virka fyrir alla landsmenn, þarf að tryggja að viðeigandi mönnun og tækjakostur sé til staðar. Ég nefni þetta því að utan sjúkrahúsa eru það fyrst og fremst sjúkraflutningamenn og bráðatæknar sem veita meðferð þangað til komið er í höfn. Ég sakna þess dálítið að ekki sé nánari útlistun á því hvernig þessari þjónustu verður háttað. Ég vil nefnilega leyfa mér að segja að sú þjónusta sem veitt er utan spítala er með mikilvægari þjónustu í heilbrigðiskerfinu.

Lýðheilsa er nefnd og ágætlega fjallað um hana og áhersla er á heilsueflingu og forvarnir og að það verði hluti af allri þjónustu, sérstaklega þjónustu heilsugæslunnar. Einnig væri gagnlegt að finna endurhæfingu stað í heilbrigðisáætlun því að hún er ekki síður mikilvægt atriði. Einn af þeim þáttum sem hægt er að kalla forvarnir er einmitt lagabreyting um Sjúkratryggingar Íslands, að þær taki þátt í greiðslu sálfræðimeðferðar. Ég vona að það verði að veruleika áður en langt um líður.

Við erum líka með sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir hringinn í kringum landið og sjálfsagt að huga að því atriði þar sem ljóst er að varla er hægt að bæta meiru á þjónustu Landspítala. Það er því nokkuð furðulegt, vil ég leyfa mér að segja, að hæstv. heilbrigðisráðherra skuli hafa falið Landspítalanum að taka á móti ungmennum í neyslu og fíknivanda, en það er þjónusta sem SÁÁ hefur hingað til sinnt. Mig langar að velta upp þeirri spurningu hvort það hafi verið útséð með að SÁÁ gæti tekið áfram við þessum ungmennum. Mér finnst þetta mjög mikilvægt atriði.

Í lokin vil ég nefna notendur þjónustunnar. Þeir virðast ekki eiga rödd í þessu plaggi — en þetta er nú kannski svolítið yfirgripsmikið plagg og erfitt að koma öllu að. Ég vona sannarlega að notendur fái rödd. Það er mikið talað um þá en ég óska eftir því að við tölum líka við þá. Ég nefni sérstaklega langveika í því sambandi, þeir vilja oft gleymast.

Ég tek undir þau orð sem hér hafa verið sögð, stefnan er góð svo langt sem hún nær. En ég vil samt enn og aftur ítreka að það skortir á nánari útlistun á flestum þáttum hennar. Við í velferðarnefnd höfum þá verk að vinna og tökum vel utan um málaflokkinn.