149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[19:07]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir afar góða umræðu um heilbrigðisstefnu og jafnframt þakka fyrir jákvæða tóna sem snúast um grunninn í stefnunni. Ég met það svo, eftir að hafa hlustað hér á ræður þingmanna, bæði úr stjórnarflokkunum og stjórnarandstöðuflokkunum, að í meginatriðum sé fólk þeirrar skoðunar að það sé gott að stefnan sé fram komin. Ég hef ekki heyrt athugasemdir við þessa kaflaskiptingu og þetta upplegg. Það má auðvitað fjalla um afmörkunina og nokkrir hafa bent á að hún snúist í raun og veru um heilbrigðisþjónustuna, þ.e. þjónustuna sem slíka, en minna um aðra þætti sem hafa jú sannarlega áhrif á lífslíkur eins og lifnaðarhætti, félags- og efnahagslega þætti og umhverfisþætti. En það er ákvörðun að afmarka þetta svona. Manni er auðvitað alltaf dálítill vandi á höndum þegar slíkar ákvarðanir eru teknar.

Hér hefur líka verið nefnt að það sé mikilvægt að svona stefnuplögg séu ekki í tómarúmi, þau kallist á við önnur gögn, og sérstaklega hafa þingmenn sem hafa átt sæti í hv. fjárlaganefnd nefnt þann þátt. Einmitt með hliðsjón af þeirri grundvallarsýn minni að það sé mikilvægt að stefnuskjöl séu til lengri framtíðar en kallist líka á við aðrar stefnur sem eru bæði í smíðum og eru virkar og jafnvel samþykktar, hef ég lagt á það áherslu að við þurfum að búa til og leggja fram áætlanir til fimm ára í senn ár hvert, byggðar á þessari stefnu og samhliða fjármálaáætlun, þ.e. að fjármálaáætlun sem kemur til þingsins ár hvert sé með heilbrigðisáætlun eða aðgerðaáætlun í heilbrigðismálum til hliðar við sig. Á hverju ári séum við í raun og veru að jarðtengja, ef svo má að orði komast, heilbrigðisstefnuna með því að hún sé fjármögnuð að því leyti sem varðar aðgerðir sem útheimta fjármögnun. Auðvitað eru aðgerðir í heilbrigðismálum sem ekki endilega endurspeglast í fjármálaáætlun vegna þess að þær snúa að breyttri verkaskiptingu eða einhverjum öðrum þáttum sem ekki þarf að fjármagna sérstaklega, en það er samt full ástæða til að nefna þær og að það komi fram í slíku plaggi.

Hér hefur líka verið talað um mikilvægi þess að árangur og gæði séu metin. Ég vil endurtaka það, þó að það hafi komið fram í andsvari við fyrri ræðu mína, að gæðaáætlun embættis landlæknis er þegar undirrituð. Embættið og sú sem hér stendur hafa undirritað gæðaáætlun og innleiðingarferlið mun hefjast á þessu ári. Það þýðir að allir veitendur heilbrigðisþjónustu þurfa að leggja á sig að útbúa gæðavísa fyrir sína þjónustu sem viðkomandi er tilbúinn til að birta miðlægt, ekki síst í þágu þess að sú heilbrigðisþjónusta sem liggur fyrir og er aðgengileg hverju sinni sé gagnsæ og sýnileg, að notendur geti séð hvaða þjónusta er í boði, hvert inntak hennar er, hvaða gæðakröfur eru gerðar o.s.frv., þannig að notendur, þ.e. almenningur, sem þetta snýst jú allt um, séu miðlægir í stefnunni allri.

Hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir nefndi stöðu notenda í plagginu. Fjórði kaflinn er í raun og veru allur tileinkaður notendum, ef svo má segja, þannig að ég átta mig ekki alveg á ábendingunni en hún lýtur kannski að notendasamráðinu almennt. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt. Með því að við erum komin með þessa sýn, að þjónustan sé gagnsærri, það sé meira um gagnvirka miðlun á þeirri þjónustu sem er fyrir hendi, heilbrigðisupplýsingar séu aðgengilegri og ekki síður þær upplýsingar sem lúta að notkun hvers og eins á heilbrigðisþjónustunni — og þá á ég við t.d. greiðsluþátttökukerfið eða aðra þætti — ætti það að verða til þess, það er a.m.k. mín sýn, að valdefla almenning í því að heilbrigðisþjónustan sé fyrst og fremst í þágu almennings en ekki í þágu þjónustunnar sjálfrar. Notendur þjónustunnar en ekki veitendur hennar séu miðlægir í henni.

Allnokkrir nefndu hér sjónarmið sem snúast um sjúkraflutninga og að þeir séu ekki nægilega vel innrammaðir hér. Ég held að við getum mjög lengi kallað fram að eitthvað sé ekki nefnt. Ég vil eiginlega nefna það sérstaklega við velferðarnefnd að fara mjög varlega í því að fara að búa til nýjan lista af öllu sem ekki er nefnt hér en reyna að halda sig við það um hvað þessi stefna snýst í raun og veru. Hún snýst um grunninn, um aðferðafræðina, um kröfurnar o.s.frv. en ekki um einstaka þætti þjónustunnar. Það að endurhæfing er ekki nefnd hér þýðir ekki að þessi stefna fjalli ekki um endurhæfingu vegna þess að endurhæfing er partur af öllu heilbrigðiskerfinu. Hún á sérstaklega að vera partur af allri heilbrigðisþjónustu sem lýtur að langvinnum sjúkdómum og ósmitbærum sjúkdómum eins og krabbameini, geðsjúkdómum og fleiri sjúkdómum sem eru þeirrar gerðar að nánast á fyrsta degi frá greiningu er eðlilegt að endurhæfing sé partur af þeirri meðferð sem viðkomandi stendur til boða. Ekki kannski eins og við vorum að hugsa þetta áður fyrr, að viðkomandi byrji á því að stunda forvarnir, svo verði hann veikur og þá þurfi hann að fara í heilbrigðiskerfið og svo sé hann ekki lengur veikur og þá eigi hann að fara í endurhæfingu. Núna lítum við svo á að allir þessir þættir skarist með einhverju móti.

Ég er sammála þeirri nálgun og þeirri umræðu að við eigum ekki að tala um sjúkraflutninga bara þannig að þeir snúist um að flytja sjúklinga frá einum stað til annars, sem er kannski sú nálgun sem hefur verið ríkjandi til skamms tíma, heldur miklu frekar að við séum að koma nauðsynlegri bráðahjálp á slysstað innan ákveðins tíma. Þar eigum við t.d. að setja okkur markmið. Við eigum að segja að slík hjálp eigi að hafa borist innan 30 mínútna. Það er raunhæft að gera það og við eigum að gera það í okkar strjálbýla landi, setja okkur það markmið að afla okkur þess tækjakosts sem þarf til að geta sinnt fólki óháð búsetu innan þessara tímamarka. Þetta ætti að vera mögulegt hvar sem er á landinu og það á að vera okkar markmið. Ég veit að þetta er sérstakt áhugamál hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar sem nú gengur í salinn.

Það hafa komið fram í umræðunni sjónarmið sem lúta sérstaklega að því hversu nákvæm aðgerðaáætlunin eigi að vera og hversu stíf og hversu nákvæm hún muni verða og hvernig hún muni birtast þinginu. Það er ekki gert ráð fyrir því sérstaklega í stjórnarsáttmálanum eða í þessari þingsályktunartillögu hvernig þetta samtal eigi að fara fram. Ég sjálf hef í hjarta mínu svo miklar mætur á Alþingi og tel að Alþingi geti verið svo gagnlegur vettvangur til að ræða stefnu, að ég held að við eigum að gera meira af því en minna. Við eigum að vera minna í því að tala um uppákomur dagsins — og þá er ég að tala um fyrirsagnirnar sem verða oft aðalumfjöllunarefnið — en meira að tala um mál til lengri tíma. Þess vegna vil ég koma til Alþingis með þessa aðgerðaáætlun til fimm ára einu sinni á ári, ekki til þess síðan að beina henni til velferðarnefndar. Ég held að það sé allt of þunglamalegt að gera það. Fjármálaáætlun fer til fjárlaganefndar samkvæmt lögum á hverju ári og þetta er hliðarplagg sem má horfa á til hliðar. En mér finnst full ástæða til þess að ég ræði það í einni umræðu, eins og gert er með skýrslur, ár hvert við Alþingi og ég vona að þau ár verði mörg.

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir afar góða umræðu og hlakka til samstarfsins við hv. velferðarnefnd í því að vinna úr þessu mikilvæga plaggi.