149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum.

[10:31]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er ekki óhugsandi að við hæstv. fjármálaráðherra höfum ólíkar skoðanir á aðkomu stjórnvalda þegar kemur að samningum á almennum vinnumarkaði, en báðir erum við samt líklega sammála um að ríkisstjórnin þarf að stíga stór skref til að liðka fyrir málum. Í fyrsta lagi eru húsnæðismálin risastór liður. Samfylkingin lagði fram í haust aðgerðaáætlun í mörgum liðum, sem nú er í meðförum þingsins. Nú hefur ríkisstjórnin birt sínar tillögur sem eru að mörgu leyti áþekkar og það er mjög gleðilegt, en þær eru ófjármagnaðar og koma heldur seint. Ég spyr því ráðherra: Hvernig hyggst hann fjármagna þær?

Í öðru lagi hefur hæstv. fjármálaráðherra ekki tekið vel í hugmyndir ASÍ um fjölþrepa skattkerfi. Samfylkingin hefur hins vegar talað fyrir slíkum hugmyndum og ekki útilokað að við gætum séð fyrir okkur að styðja slíkar hugmyndir ef þær kæmu fram hjá ríkisstjórninni. Ég er því forvitinn að heyra hvort eining sé innan ríkisstjórnarinnar um að skoða þessi mál og koma til móts við verkalýðshreyfinguna eða hvort viðbrögð hæstv. fjármálaráðherra í fjölmiðlum séu hið endanlega svar.

Í þriðja lagi, og kannski ekki síst, hleypti úrskurður kjararáðs veturinn 2016 mjög illu blóði í marga landsmenn og verkalýðshreyfinguna. Einhverjar breytingar hafa vissulega verið gerðar hér í þinginu til að koma til móts við þá gagnrýni, en þær hafa þó almennt ekki þótt nægjanlegar. Ég sjálfur tel óhjákvæmilegt að bregðast enn frekar við og spyr því ráðherra hvort hann sé sammála mér.

Að lokum langar mig að spyrja hann hvort hann telji koma til greina að frysta laun þingmanna og ráðherra lengur en gert er ráð fyrir eða hvort hann hafi aðrar leiðir sem kannski gæti orðið sátt um.