149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum.

[10:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Já, hér er tekið upp mál sem vissulega varðar miklu. Það varðar mjög miklu fyrir samfélagið allt að það takist að ljúka samningum á vinnumarkaði, við almenna markaðinn og hið opinbera. Samningalotan stendur yfir og horft er til stjórnvalda eins og oft er. Ég tel að ríkisstjórnin hafi nú þegar með ýmsum aðgerðum hjálpað til, liðkað fyrir. Ég nefni aðgerðir í tengslum við fjárlög yfirstandandi árs, eins og sérstaka hækkun barnabóta til tekjulágra; breytingar á persónuafslætti og viðmiðunarmörkum á milli efra og neðra þreps; hækkun atvinnuleysisbóta á síðasta ári, mjög mikil hækkun, sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir; lenging fæðingarorlofs — allt eru þetta atriði sem snerta vinnumarkaðinn.

Hér nefnir hv. þingmaður sérstaklega húsnæðismálin og nýútkomna skýrslu um þau, sem ég vil benda á að er ekki skýrsla ríkisstjórnarinnar heldur samstarfsmál milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Við erum að vinna með niðurstöðu þessa starfshóps — mjög góð vinna sem við höfum verið í. Henni hefur verið vel tekið. Við þurfum einfaldlega að skoða hversu fjárfrekar einstakar tillögur eru. Sumar kalla ekki á mikil ný útgjöld, eins og t.d. að við leggjum að jafnaði í meiri gagnaöflun til að vita á hverjum tíma hver staðan er á húsnæðismarkaði. En aðrar kalla á fjárframlög eins og t.d. að fjölga íbúðum í almenna íbúðakerfinu.

Ég verð að nota síðara andsvar til að koma aðeins nánar inn á skattana, en ég vil segja með kjararáðið að við höfum gert gríðarlega miklar breytingar þar. Við höfum í raun og veru, með nýju frumvarpi, sagt að úrskurður kjararáðs frá 2016 skuli gilda fram á mitt þetta ár. Það er því sem næst þriggja ára frysting (Forseti hringir.) fyrir alla þá sem heyra undir þann úrskurð. Ég held að það sé rétt, sem hv. þingmaður segir, að það þarf (Forseti hringir.) líklega að passa sig gagnvart öðrum en þeim (Forseti hringir.) sem sitja á þingi og taka laun eftir nýja fyrirkomulaginu.