149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum.

[10:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins að skattamálunum sem spurt var um í fyrri fyrirspurn. Það sem ég hef helst haft við tillögur ASÍ að athuga er að þær auka jaðarskattana. Það sem mér finnst vera ákveðin hugsanavilla hjá mörgum í tengslum við uppbyggingu skattkerfisins í heild er að fara annars vegar fram á mjög hátt frítekjumark en síðan lága skatta fyrir þá sem koma fyrst inn í skattkerfið í tekjuskattinum. Menn verða að velja dálítið á milli þessara tveggja kosta. Ég hefði frekar verið talsmaður þess að vera með lægri frítekjumörk og byrja með lægri prósentur en þessi framstilling á málinu gerir það í raun og veru að verkum að við þurfum að hækka skattprósentuna of mikið á millitekjufólkið.

Barnabótakerfið hefur verið styrkt mjög verulega á undanförnum árum. Við erum að ná u.þ.b. sömu framlögum og áður var og sama með vaxtabæturnar. Við getum gert breytingar á tekjuskatti þannig að það komi (Forseti hringir.) sérstaklega þeim til góða sem eru í lágtekjuhópunum og við munum gera það og til þess verða okkar tillögur smíðaðar. (Forseti hringir.) Ég ætla ekki að segja neitt ákveðið varðandi kjararáðsmálin umfram það sem þegar er komið fram. Þetta verður bara að vera matsatriði í heildarsamhengi hlutanna.