149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

endurskoðun framfærsluviðmiða LÍN.

[10:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er verið að spyrja út í mál sem ekki er komið fram, mál sem er í vinnslu. Það byggist á fyrri frumvörpum sem hafa legið fyrir þingi en hafa ekki fengið afgreiðslu. Ég tel að stóra breytingin í umræðunni hafi einmitt orðið í tíð Illuga Gunnarssonar sem menntamálaráðherra þar sem ákveðið var að færa okkur mjög ákveðið í áttina að styrktarkerfi í námslánum og í stuðningi við námsmenn í stað þess að treysta alfarið á þetta ógegnsæja niðurgreiðslukerfi vaxta sem við höfum verið með fram til þessa.

Ég held að þetta sé mikið framfaraspor. Þetta er mjög mikil grundvallarbreyting sem ég styð heils hugar. Hér í þinginu hafa skoðanir verið skiptar um þann þáttinn sem snýr að lántökunni og því m.a. að þeir sem jafnvel eru bersýnilega ekki í brýnni þörf fyrir stuðning geti fengið styrkinn, en á móti kemur ýmislegt annað. Ég get eiginlega ekki farið út í efnislega umræðu um allt það sem þetta mál snertir.

Hvað varðar stuðning úr fjármálaráðuneytinu höfum við í sjálfu sér ekkert annað í höndunum í dag í þessu samhengi en þá samþykktu fjármálastefnu sem er í gildi. Það er ekki þannig að fjárveitingavaldið sé í fjármálaráðuneytinu, það liggur hér á þinginu. Við verðum að taka dýpri umræðu um það hvernig breytingar á kerfinu verði fjármagnaðar þegar heildstæð tillaga er komin fram og fyrir liggur hvernig menntamálaráðuneytið hyggst forgangsraða úr þeim römmum sem ráðuneytið hefur úr að spila. Það er einfaldlega ekki farið að reyna á þessa þætti sem þingmaðurinn spyr mig hér um, hvernig fjármálaráðuneytið hyggst bregðast við tillögum frá menntamálaráðuneytinu sem ekki eru komnar fram.