149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

endurskoðun framfærsluviðmiða LÍN.

[10:43]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég skil vel að hæstv. fjármálaráðherra sé varfærinn og í raun er það hlutverk hans í þessu máli sem öllum öðrum. Ég leyni því ekki að ég hefði viljað sjá og heyra ótvíræðari stuðning í þá veru, líkt og hæstv. menntamálaráðherra sagði mjög skýrt fyrr í vikunni, að framfærslugrunnur námsmanna verði hækkaður, frítekjumarkið verði hækkað. Það er það sem var boðað. Ég vil hins vegar taka undir það hjá hæstv. ráðherra að mikilvægt er að stokka upp í námslánakerfinu. Ég undirstrika að margt af því sem kom fram í frumvarpinu frá Illuga Gunnarssyni var mjög athyglisvert og myndi ýta okkur nær norræna kerfinu. Það er ekki spurning. En þar eru líka þættir sem voru gagnrýndir.

Ég vonast til þess að það frumvarp sem við fáum í haust feli í sér raunverulegar réttarbætur fyrir námsmenn um leið og við förum inn í nútímann. En ég lýsi enn eftir eindregnum stuðningi af hálfu hæstv. fjármálaráðherra við að framfærslugrunnur námslána verði endurskoðaður og frítekjumarkið hækkað á næsta hausti.