149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

uppbygging fjármálakerfisins.

[10:50]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég þakka miklu betri svör en ég átti von á, að vísu bara við tveimur af fjórum spurningum. Mér heyrist að bankarnir geti alveg verið í samkeppnisrekstri vegna þess að stjórnir þeirra séu sjálfstæðar. Það er mjög gott að heyra það. Það ætti alla vega ekki að vera ástæða til að losa um þær eignir mjög hratt eða hraðar en góðu hófi gegnir. Það er líka mjög gott að heyra að ríkissjóður stendur það vel að veggjöld séu kannski ekki nauðsynleg, að hægt sé að byggja upp með öðrum hætti. Þetta eru afskaplega jákvæðar fréttir fyrir mig.

Ég hlakka til að heyra seinni tvö svörin. Áhyggjur mínar hafa hreinlega snúið að því að mikið hefur verið gert til að reyna að sannfæra fólk í landinu um að það hafi það of gott til að kvarta, en á sama tíma að staða ríkissjóðs, staða kerfisins, sé svo slæm að ekki megi gera neitt jákvætt. Margt jákvætt hefur gerst og ég dreg ekki úr því. En við verðum að fara að gera okkur grein fyrir því hvort við erum ríkt land eða fátækt, hvort við höfum efni á því að gera hlutina vel eða ekki.