149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

kjör öryrkja.

[10:53]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin situr á milljörðum sem átti að nota til að taka á krónu á móti krónu vanda öryrkja. Ríkisstjórnin liggur á þeim eins og ormur á gulli og virðist ekki ætla að láta þá sem nauðsynlega þurfa á peningunum að halda fá þá. Ólöglegar búsetuskerðingar hafa dunið á öryrkjum undanfarið og enn eftir rúmt hálft ár virðist ekki vera möguleiki á að gera eitt né neitt. Skýringin á því er að það vantar fjármuni.

Þetta eru fjármunir sem voru teknir af þeim sem verst standa í þjóðfélaginu, fólki sem lifir við sult, fólki sem annaðhvort þarf að vera komið upp á maka sinn eða félagsbætur. Ég spyr: Er búið að fjármagna þetta? Og ef ekki, hvers vegna?

Á sama tíma vil ég benda á að kjarasamningar eru í gangi. Ríkið er búið að finna réttu framfærsluna og það eru 392.000 kr., sem eru listamannalaun skerðingarlaust.

Þetta er flott og mjög gott og frábært að við skulum vera búin að finna það. En ég spyr: Ætlum við ekki koma sömu krónutölu, skerðingarlaust, til öryrkja, eldri borgara, atvinnulausra? Eru þetta þá ekki lágmarkslaun í landinu? Ef við sæjum til þess að svo yrði gæfum við fullt af fólki tækifæri til að fara að vinna. Það hlýtur að vera stefna að allir geti unnið. En á meðan við erum með krónu á móti krónu skerðingu dæmum við fólk í fátæktargildru. Við skerðum ýmsar bætur, eins og dánarbætur, mæðrabætur, feðralaun, og svo er það króna á móti krónu skerðingin.