149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

kjör öryrkja.

[10:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni þegar hann segir að króna á móti krónu skerðingar séu óheppilegar. Við höfum reyndar gert kerfisbreytingu varðandi ellilífeyrinn og höfum afnumið þennan bótaflokk. Það verður hins vegar að muna þegar við ræðum þá sérstöku framfærsluuppbót sem sú skerðingarregla á við um að sögulega var hún hugsuð sem framfærsluuppbót fyrir þá sem voru í verstu stöðunni. Þetta var á sínum tíma innspýting stjórnvalda sem átti að beina sérstaklega til þeirra sem voru í veikustu stöðunni. Til að hún myndi ekki dreifast til allra, líka til þeirra sem voru með atvinnutekjur eða aðra framfærslu, þurfti grimmar skerðingar og þær heita í daglegri umræðu króna á móti krónu skerðing. Ef við hefðum ekki haft krónu á móti krónu skerðingu þegar sérstaka framfærsluuppbótin var sköpuð á sínum tíma — það var löngu fyrir mína tíð í ríkisstjórn — hefðu fjármunirnir ekki nýst þeim sem voru í veikustu stöðunni. Þetta verða menn að muna.

Nú þegar við erum í virku samtali, og félagsmálaráðherra leiðir þá vinnu í dag, um að gera grundvallarbreytingu á þessum bótaflokki verður það ekki gert án þess að aðrar breytingar séu um leið teknar til skoðunar, ella værum við ekki að gera neitt annað en að kippa stuðningi frá þeim sem eru í verstri stöðunni.

Ég held að við hv. þingmaður séum sammála um að það að gera ekkert nema kippa úr sambandi krónu á móti krónu skerðingu þýðir aðeins að minna verður til skiptanna fyrir sömu fjárhæð til þessa hóps, nema menn ætli þá að fara að fjármagna það að láta alla hafa sérstöku framfærsluuppbótina, (Forseti hringir.) sem upphaflega var hugsuð fyrir þá sem eru í verstri stöðunni. Þá erum við bara að tala um eitthvert allt annað mál og við þurfum verðmiða á það. Við þurfum að spyrja okkur: Er það sú aðgerð sem mestu skilar fyrir þau áform sem við höfum?